ÚTILOKAÐ AÐ BYGGJA LAXELDI EINGÖNGU UPP Á LANDI

ÚTILOKAÐ AÐ BYGGJA LAXELDI EINGÖNGU UPP Á LANDI

Eldisframleiðsla á laxi í heiminum er um 2,5 milljónir tonna. Það svarar til um 17 milljarða máltíða. Hlutur landeldisins er um 0,1 prósent, eins og fram hefur komið m.a. í grein eftir Helga Thorarensen prófessor við Háskólann á Hólum. Þetta sýnir í hnotskurn hversu fráleitt það er að unnt sé að flytja allt það laxeldi upp á land sem nú fer nánast að öllu leyti fram í sjó. Þó er þessu haldið fram af fullri alvöru, að ætla má, í opinberri umræðu.

FÁEIN HUNDRUÐ TONN
Rétt er það að ýmis dæmi má nefna um áform um frekara landeldi. Það er hins vegar alveg jafn ljóst að þó öll hin ítrustu áform gangi eftir, sem þó má telja ólíklegt, mun það ekki breyta heildarmyndinni. Laxeldisframleiðslan verður í fyrirsjáanlegri framtíð að langmestu leyti í sjó en ekki á landi. Landeldisframleiðslan sem stundum er vísað til sem sérstakrar fyrirmyndar fyrir okkur Íslendinga, svo sem í Kanada, Póllandi og Sviss, hleypur á fáeinum hundruðum tonna á ári í hverjum stað. Það gefur augaleið að eldi af þeirri stærðargráðu stendur ekki undir fjárfestingu og rekstrarkostnaði sem fylgir nútíma fiskeldi.

Einar K. Guðfinnsson: Nýlega kom út skýrsla nokkurra virtra vísindastofnana í Noregi sem ætlað er að varpa ljósi á stöðu og möguleika landeldisins í samanburði við sjókvíaeldið. Þar getur margt fróðlegt að líta. Meðal annars það að framleiðslukostnaðurinn í landeldinu þar í landi væri nær 50 prósent hærri en í hefðbundnu eldi í sjókvíum.

KOSTNAÐURINN 50% MEIRI
Vitaskuld á landeldi á laxi sem og öðrum tegundum fullan rétt á sér og gerir ekkert annað en að auka fjölbreytni í þeirri mikilvægu starfsemi sem fiskeldið er. Því ber að fagna að menn vilji stunda fiskeldi á landi til viðbótar við þá starfsemi sem fer fram í sjókvíum og verður auðvitað ráðandi um ókomin ár.

Nýlega kom út skýrsla nokkurra virtra vísindastofnana í Noregi sem ætlað er að varpa ljósi á stöðu og möguleika landeldisins í samanburði við sjókvíaeldið. Þar getur margt fróðlegt að líta. Meðal annars það að framleiðslukostnaðurinn í landeldinu þar í landi væri nær 50 prósent hærri en í hefðbundnu eldi í sjókvíum.

MIKIL ANDSTAÐA VIÐ LANDELDI Í BANDARÍKJUNUM
Því var slegið upp í fjölmiðlum að mikil áform væru nú í Bandaríkjunum um landeldi og vísað til þess að það væri til marks um breyttar áherslur í heiminum í fiskeldismálum. Í þessu sambandi er athyglisvert að fylgjast með harðvítugri umræðu sem á sér stað t.a.m. í Maine-fylki þar sem slík áform hafa verið kynnt og þar sem gagnrýnin beinist mjög að umhverfisþáttum, svo sem landrými, vatnsnotkun, úrgangi og fleiri þáttum. Því fer þess vegna víðs fjarri að úti í hinum stóra heimi sé eintóm ánægja með þessa þróun og eftirtektarvert er að að sumu leyti er beitt sama málflutningi og gert er í gagnrýninni á fiskeldi hér á landi.

LANDELDI NÆRRI MÖRKUÐUM – FJARRI ÍSLANDI
Þau áform sem helst eru núna til umræðu varðandi landeldi eru á svæðum sem liggja nærri helstu mörkuðum, svo sem í Bandaríkjunum. Þannig horfa fjárfestarnir á að fjárhagslegt óhagræði af landeldi í samanburði við sjókvíaeldi megi að nokkru vega upp með nálægð við markaðina. Þegar af þeirri ástæðu gefur það augaleið að landeldi hér á landi gæti aldrei staðist þessum keppinautum snúning og svo sem ekki heldur í Noregi ef út í það er farið, nema þá ef til vill í litlum mæli hlutfallslega. Hugmyndir um landeldi á laxi á svæðum hér á landi þar sem nú er stundað sjókvíaeldi, á Austfjörðum og Vestfjörðum, eru því gjörsamlega óraunhæfar.

HVAR Á AÐ VIRKJA?
Fiskeldi á landi í stórum stíl kallar á mikla orku. Það er því ljóst að ef menn ætla að stunda landeldi á laxi svo um munar kallar það á virkjanir til viðbótar því sem fyrirhuguð stóraukin orkuþörf, m.a. vegna orkuskipta, hefur í för með sér. Ætla menn að um það gæti orðið almenn sátt í samfélaginu? – Við vitum öll svarið við því.

VATNSNOTKUN, ÚRGANGUR, LANDNÝTING OG DÝPRA KOLEFNISFÓTSPOR
Landeldi hefur einnig í för með sér mikla vatnsnotkun sem ekki er endilega alls staðar auðvelt að verða við, jafnvel hér á landi, þó það komi kannski á óvart. Endurnýtingarkerfi á hinn bóginn sem unnt væri að nota til að draga úr vatnsnotkun krefst viðbótarorku sem í dag er ekki til staðar. Þá er ljóst að úrgangsmál frá landeldi sem fram fer í stórum stíl er alls ekki einfalt úrlausnarefni. Ofan á þetta allt saman bætist síðan að kolefnisfótspor slíkrar starfsemi er mun dýpra en í sjókvíaeldi, sem er kannski ekki beinlínis það æskilegasta þegar við heyrum bókstaflega neyðaróp um alla heimsbyggðina um að draga úr slíku. Loks er að nefna að landeldi af nægjanlegri stærðargráðu útheimtir gríðarleg landsvæði nærri þéttbýli.

„ÚTILOKAÐ AÐ BYGGJA LAXELDI EINGÖNGU UPP Á LANDI“
Á Íslandi hefur verið stundað laxeldi á landi í takmörkuðum mæli um árabil og verið til mikillar fyrirmyndar. Hér er því til staðar reynsla og samanburður við aðra kosti. Það eru þess vegna hæg heimatökin að kalla eftir áliti þeirra sem reynsluna hafa. Það vill svo vel til að slíkt hefur verið gert og niðurstaðan er einföld og skýr: „Ef þetta er allt tekið saman má segja að útilokað sé að byggja laxeldi eingöngu upp á landi,“ segja þeir sem tala af langri eigin reynslu.

Einar K. Guðfinnsson, stjórnarformaður Landssambands fiskeldissstöðva

Greinin birtist upphaflega í Fréttablaðinu 11. október 2018

Fagnaðarefni úrskurðarnefndar

Fagnaðarefni úrskurðarnefndar

Ákvörðun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á dögunum um að fella úr gildi starfsleyfi laxeldisfyrirtækja á sunnanverðum Vestfjörðum er að nokkru leyti fagnaðarefni. Hann færir ákveðna tilhneigingu stjórnsýslunnar sem átt hefur sér stað gagnvart landsbyggðinni á liðnum árum, einkum Vestfjörðum, á endastöð. Tilhneigingu sem hefur varað hefur verið við um margra ára skeið við litlar undirtektir og viðbrögð löggjafans. Loksins hefur verið kveðinn upp úrskurður sem gekk rækilega fram af almenningi. Svo mjög að löggjafinn mun bregðast við. Hvort og þá hvernig og hversu hratt og örugglega það verður á eftir að koma í ljós.

Tilhneiging stjórnsýslunnar

Tilhneigingin sem hér um ræðir er sú að gerðar hafa verið meiri kröfur til framkvæmda í fámenninu en í fjölmenninu. Gengið harðar fram og lagabókstafurinn túlkaður bókstaflega. Um leið látið undan óbilgjörnum og um margt fráleitum hugmyndum, sem settar hafa verið í búning samtaka, sjaldnast fjölmennari en sem nemur einum eða tveimur mönnum. Flest hefur þetta verið gert undir nafni náttúruverndar. Náttúruverndar sem enginn í fjölmenninu vill ástunda heima hjá sér en landsbyggðin, oft Vestfirðir, eiga að fullnusta. Daglegt líf og hagsmunir íbúa hafa engu máli skipt.

Dæmin fjölmörgu

Dæmin eru fjölmörg og ærir auðvitað óstöðugan að fara að nefna þau enn einu sinni. Það skal samt gert. Sjálfsögð vegagerð um Teigsskóg hefur frestast um áratugi vegna lagaþrætu eiganda tveggja sumarskýla. Vegagerð sem þykir sjálfsögð á öðrum stöðum á landinu. Í þeim málarekstri hefur stjórnsýslan algjörlega brugðist og látið allt meðalhóf lönd og leið. Fellt úrskurði sem óhugsandi er að muni nokkurn tímann falla í fjölmenninu. Hámarkinu hingað til var þó náð þegar tveir auðjöfrar gátu í krafti fjármagns komið í veg fyrir eðlilega afgreiðslu skipulagsvaldsins í héraði.

Sjálfbærni í raforkuframleiðslu hefur þótt sjálfsagður réttur hvar sem er á landinu. Á Vestfjörðum er hins vegar ennþá stuðst við olíuframleidda raforku stóran hluta ársins. Virkjun, sem í áraraðir hefur verið í nýtingaflokki og farið í gegnum nálarauga fremstu umhverfissinna landsins, varð allt í einu bitbein þegar hún var því sem næst komin á framkvæmdastig. Reynt var að hafa áhrif á skipulagsvald í héraði bæði í krafti fjármagns og ólöglegra búferlaflutninga fyrir sveitarstjórnarkosningar.

Áform í fiskeldi á Vestfjörðum og Austfjörðum á grundvelli 14 ára gamallar vísindalegrar ákvörðunar urðu skyndilega orustuvöllur fámenns hóps veiðirétthafa sem stofnað hafa um þá herferð svokölluð umhverfissamtök. Málflutningur andstæðinga fiskeldis undir ströngu vísindalegu eftirliti virðist engum takmörkunum háður og í litlu samræmi við raunveruleikann. Þar er slegið fram fullyrðingum sem henta hverju sinni í trausti þess að almenningur átti sig ekki á staðreyndum máls hverju sinni. Þáttur Hafrannsóknarstofnunar í málinu er ámælisverður og gert það að verkum að áform um laxeldi í Ísafjarðardjúpi eru í fullkomnu uppnámi. Svokölluð stefnumótun milli eldisfyrirtækja og veiðirétthafa á síðasta ári, sem í raun fól í sér mismunun á milli eldissvæða og fyrirtækja, hefur sýnt sig að var mikið óhappaverk. Sú stefnumótun er auðvitað ekki pappírsins virði því veiðirétthafar hafa aldrei virt hana.

Halldór Jónsson: Öll matvælaframleiðsla er mengandi. Laxeldi í sjó er sú grein sem hvað minnst mengar. Við hvaða kosti þurfa mjólkurbændur og nautgripabændur að bera sína framleiðslu saman við þegar kemur að umhverfismati.

Mengandi matvælaframleiðsla

Ákvörðun úrskurðarnefndar á dögunum dugir ekki að skoða undir þröngu sjónarhorni. Að því gefnu að eitt skuli yfir alla ganga í úrskurðum nefndarinnar verður fróðlegt að sjá hvernig ganga mun hjá öðrum fyrirtækjum í matvælaframleiðslu í framtíðinni þegar kemur að skipulagsmálum. Öll matvælaframleiðsla er mengandi. Laxeldi í sjó er sú grein sem hvað minnst mengar. Við hvaða kosti þurfa mjólkurbændur og nautgripabændur að bera sína framleiðslu saman við þegar kemur að umhverfismati. Eigi náttúran að njóta vafans, eins og úrskurðarnefndin kallar nú eftir, er borðleggjandi að hætt verði mjólkur- og nautakjötsframleiðslu. Hvað þá kjúklinga- og svínarækt.

Ákvörðun úrskurðarnefndar á dögunum er nefnilega ekki einkamál laxeldisfyrirtækja. Hún snertir alla matvælaframleiðslu og að því leyti er hún fagnaðarefni.

Mannfyrirlitningin og rasisminn

Úrskurðurinn hefur kallað fram ótrúlega framkomu forystumanns veiðirétthafa og umhverfissamtaka gagnvart íbúum þeirra landssvæða er í hlut eiga. Fyrirlitning gagnvart hagsmunum íbúa er algjör. Forystumaður þeirra grípur til ósanninda um starfsmannafjölda fyrirtækja og fjölda íbúa er í hlut eiga. Steininn tók þó úr þegar hann bar fyrir sig í sjónvarpsviðtali fullkomnum rasisma þegar hann lýsti því yfir að íbúarnir skiptu ekki máli því þeir væru flestir pólverjar. Þetta gerist á sama tíma og þjóðin á erfitt með að trúa sögum um framkomu við erlent verkafólk.

Úrskurðurinn er því eins og áður sagði að mörgu leyti fagnaðarefni. Hann hefur staðfest ójafna stöðu íbúa gagnvart stjórnsýslunni og því miður talsverða mannfyrirlitningu. Nú hlýtur botninum að vera náð. Löggjafinn getur ekki annað en dregið gluggatjöldin þungu frá og hleypt hreinu lofti og birtunni inn.

Halldór Jónsson

„Undir þeim mörkum að erfðasamsetningu villtu stofnanna sé hætta búin“

„Undir þeim mörkum að erfðasamsetningu villtu stofnanna sé hætta búin“

„Þessi fjöldi eldislaxa í ám á þessum svæðum, er í samræmi við það sem áhættumat um erfðablöndun gerir ráð fyrir miðað við núverandi umfang sjókvíaeldiseldis hér við land. Hlutfall eldislaxa í þessum ám er, miðað við þennan fjölda laxa, vel undir þeim mörkum að erfðasamsetningu villtu stofnanna sé hætta búin.“

Þetta segir á vef Hafrannsóknastofnnar í framhaldi af  tilkynningum um 4 laxa í ám sem „voru hugsanlega taldir ættaðir úr eldi“.

Sjá umfjöllun Hafrannsóknastofnunar í heild: https://www.hafogvatn.is/is/midlun/frettir-og-tilkynningar/voktun-a-laxveidiam

Villtir laxastofnar standa einna sterkast í Noregi þrátt fyrir gríðarlegt laxeldi

Villtir laxastofnar standa einna sterkast í Noregi þrátt fyrir gríðarlegt laxeldi

„Sú staðreynd að villtir laxastofnar standa einna sterkast í Noregi þrátt fyrir gríðarlegt laxeldi og að hrun varð einna mest í laxastofnum í þeim löndum þar sem ekkert laxeldi er ætti að segja einhverja sögu.“
Þetta kemur fram í facebook-færslu Ólafs Sigurgeirssonar lektors við Háskólann á Hólum. Færsla hans er í framhaldi af umræðu sem skapaðist á facebókarþræði LF þar sem vísað var í viðtal við Ólaf í landsmálablaðinu Feyki. Hér að neðan fer færsla Ólafs í heild sinni með millifyrirsögnum LF.

Ólafur Sigurgeirsson: Sú staðreynd að villtir laxastofnar standa einna sterkast í Noregi þrátt fyrir gríðarlegt laxeldi og að hrun varð einna mest í laxastofnum í þeim löndum þar sem ekkert laxeldi er ætti að segja einhverja sögu.

Það er fráleitt að allir líffræðingar eða vísindastofnanir séu samdóma eða einróma um áhrif eldislaxa á villta laxastofna.
„Ekki hefur enn tekist að sýna fram á að sú kenning sé rétt“
Á árunum 1985-1987 varð mikið hrun í laxastofnum í N-Atlantshafi, eins og sjá má á aflatölum. Svo víðtækt hrun er eðlilega helst útskýrt með því að krappar og
afdrífaríkar breytingar hafi orðið á lífsskilyrðum í hafi, en ekki er mikið um beinar mælingar sem sína orsakirnar. Þeir sem nenna geta skoðað hvað laxeldið var mikið þá. Árið 1991 koma Ketil Hindar, Ryman og Utter fram með þá kenningu að eldislax muni útrýma villtum laxastofnum sleppi hann úr haldi, m.a vegna þess að erfðabreytileiki stofna myndi minnka og einnig „fitness“ (lífgirni). 27 árum og mörgum milljörðum síðar hefur ekki enn tekist að sýna fram á að sú kenning sé rétt. Það hefur hvergi verið hægt að sýna fram á að eldislax hafi útrýmt villtum laxastofnum (ekki einu sinni í Voss). Við svo dramatíska fullyrðingu hefur víðast hvar verið auðvelt að afla fjár til slíkra rannsókna, og kannski er það mergurinn málsins? Hluti af rannsóknarstarfinu hefur verið að útbúa líkön til að lýsa hugsanlegum áhrifum erfðablöndunar og hlutfalli eldislaxa af hrygningarfiski á afdrif erfðasemsetningar villtra stofna. Í því ljósi er athygisvert að skoða saman greinar Hindar et al. 2006 og Castellani et al 2018, en í hinni síðari er niðurstaða módelsins að 5-10% innblöndun eldisfisks verði vart merkjanleg og afturkræf á stuttum tíma. Hindar et al. sjá það svartara. Í því samhengi er einnig vert að nefna að rauða strik áhættumats Hafrannsóknarstofnunar í sínu reiknidæmi er 4%! (Og úr því minnst er á þann reiknigjörnig er einnig vert að nefna að þar er reiknað með 15% kynþroska fiska í síðbúnu stroki – þrátt fyrir að mælingar og allar reynslutölur, endurtek-MÆLDAR NIÐURSTÖÐUR- sýni að kynþroski eldislaxa sé á bilinu 0-3%!!)
Eldislax hefur verulega slakari æxlunarárangur
Nokkrar megin rannsóknir hafa verið mikilvægastar um lífslíkur. Árnar Imsa í Noregi og Burrishool á Írlandi voru útbúnar á níunda áratugnun sem rannsóknartæki hvar reynt var að skapa eins náttúruleg skilyrði og hægt var, með annmörkum þó, í þeim tilgangi að skoða áhrif erfðablöndunar milli villtra laxa og eldislaxa, einkum afdrif og lífslíkur afkvæma þeirra og blendinga þar á milli. Niðurstaðan er að eldislax hefur verulega lakari æxlunarárangur, lífslíkur seiða í ánni fram að sjógöngubúningi eru mun minni og ratvísi úr hafi er skert, hvort sem seiðum er sleppt eða hrogn eru grafin. Seiði af eldisuppruna sem lifa geti þó vaxið hraðar er hrein villiseiði þó lífslíkur séu í heild skertar. Þeir sem gerðu þessar tilraunir og mest hafa skrifað um þær (McGinnity ofl. 1998/2003, Fleming, ´96, ´97, ´00; og Bror og Nina Jonson) ræða í diskussjón hvort það geti leitt til þess að seiði af eldisuppruna geti þar með haft ruðningsáhrif á villt seiði, og eins og það er gjarnan orðað: ….it may have effect on the wilde…Athyglisvert er að í seinni tíma greinum annara höfunda er orðinu -may- sleppt þó engar staðfestar mælingar sýni að það eigi rétt á sér.
Mestar lífslíkur ef lax sleppur smár að vori
Önnur mikilvæg rannsóknarsería var gerð undir forystu Ove Skilbrei og náðu fram á siðasta áratug. Þær miðuðu að því að meta hver afdrif eldislaxa yrðu töpuðust þeir úr kvíum,- á ýmsum stigum eldis og á ýmsum árstíma. Niðurstöðurnar sýna að mestar líkur eru á að lax lifi af í villtri náttúru og eigi möguleika á að verða kynþroska og ganga upp í ár, ef hann sleppur smár að vori (nýútsett smolt). Lax yfir 200g á afar litla möguleika á að komast af og verða kynþroska. Þetta er í samræmi við fjölda annara rannsókna sem sýna að það eitt að lifa einhvern tíma í eldisstöð (af villtum- eða eldisuppruna) hefur veruleg áhrif á lífslíkur og ratvísi. Það þekkjum við vel hér á endurheimtuhlutfalli framleiddra gönguseiða.
Laxastofnar standa einna sterkast í Noregi
Vert er að hafa í huga að Imsa- og Burrishool tilraunirnar voru gerðar 1994-2000. Síðan þá eru nokkrar kynslóðir kynbóta á eldislaxi sem hafa gert hann að enn meira húsdýri, sem án efa hafa áhrif á lífslíkur í náttúrunni, ratvísi og æxlunarárangur. Ágætt dæmi sem er býsna skýr vísbending er fjöldi stangveiddra eldislaxa í 6 ám í Þrándheimsfirði. Þó tillit sé tekið til fjölda sloppinna eldislaxa í Noregi er þróunin býsna brött niðurávið. Myndin sem fylgir sýnir þessa þróun (heimild:https://www.vetinst.no/…/samarbeidsprosjektet-elvene…).

Sú staðreynd að villtir laxastofnar standa einna sterkast í Noregi þrátt fyrir gríðarlegt laxeldi og að hrun varð einna mest í laxastofnum í þeim löndum þar sem ekkert laxeldi er ætti að segja einhverja sögu. Hvernig ætla gagnrýnendur laxeldis í kvíum að útskýra þá staðreynd? Vekur það engar spurningar í þeirra hugum?

„Eldislaxinn á litla möguleika á að komast af í villtri náttúru“

„Eldislaxinn á litla möguleika á að komast af í villtri náttúru“

„Sá norski laxastofn sem notaður er hér í eldi hefur þegar verið kynbættur í tólf kynslóðir. Kynbæturnar hafa einkum verið með vali fyrir auknum vaxtarhraða en gegn ótímabærum kynþroska. Eldislaxinn er því orðinn þróað húsdýr sem á litla möguleika á að komast af í villtri náttúru.“
Þetta kemur fram í viðtali sem landsmálablaðið Feykir í Skagafirði átti við Ólaf Sigurgeirsson leiktor í fiskeldis og fiskalíffræðideild háskólans á Hólum. Viðtalið við Ólaf fer hér á eftir:

Ólafur Sigurgeirsson, lektor við háskólann á Hólum: Eldislaxinn er því orðinn þróað húsdýr sem á litla möguleika á að komast af í villtri náttúru

Feykir hafði samband við Ólaf Sigurgeirsson, lektor í fiskeldis- og fiskalíffræðideild Hólaskóla og forvitnaðist um hans álit á aðgerðum landsliðsmannanna og hvort hann teldi að sjókvíaeldi Arnarlax sé hættulegt íslenskri náttúru með yfirvofandi hruni íslenska laxastofnsins.

Hvatt til aukins fiskeldis um heim allan

„Já, þetta er sérkennilegt upphlaup kokkalandsliðsins og stenst eiginlega ekki neina skoðun. Það er ljóst að öll matvælaframleiðsla hefur umhverfisáhrif, sérstaklega dýrapróteinframleiðslan, með beinum og óbeinum hætti. Nærtækast er að opna augun og horfa í kringum okkur á landið sem við lifum í. Ef kokkaupphlaupið hefur einhverja merkingu hjá þeim sjálfum hljóta þau að þurfa að skoða vistspor og umhverfisáhrif við framleiðslu alls þess hráefnis, innlends og erlends, sem þau ætla sér að nota. Það gildir auðvitað ekki aðeins um kokkalandslið heldur okkur öll. Um þetta er vaxandi vitund víðast, einkum hjá ungu fólki, og hefur áhrif á neysluvenjur þess. Þörfin fyrir þeirri hugsun er staðfest í ótal skýrslum Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) og tengdum stofnunum sem fjalla um umhverfismál. Í því ljósi hefur verið hvatt til aukins fiskelds um heim allan. Það er sú aðferð dýrapróteinframleiðslu sem hefur vaxið hraðast undanfarna áratugi og nauðsyn að svo verði áfram. Við verðum einfaldlega að framleiða meira í sjónum, afli frá veiðum hefur ekki vaxið í áratugi“ segir Ólafur og útskýrir hvað þessi formáli komi spurningum blaðamanns við.

Ein umhverfisvænasta dýrapróteinframleiðsla sem við þekkjum

„Tilfellið er að laxeldi í kvíum er ein umhverfisvænsta dýrapróteinframleiðsla sem við þekkjum og skilur eftir sig einna minnst vistspor. Gagnrýnendur kvíaeldis á laxi hvetja til að framleiðslan verði flutt á land. Það er reyndar að gerast að hluta, á þann hátt að fiskurinn er alinn stærri á landi áður en hann fer í kvíarnar. Uppbygging fiskeldis á landi er hinsvegar mjög kostnaðarsöm í samanburði við kvíaeldið og hefur einnig umhverfisáhrif og skilur eftir sig vistspor eins og annað. Orkuþörfin í landeldisstöð með gegnumrennsli hefur verið metin 5-8x meiri en í kvíaeldi fyrir hvert tonn framleitt og 10-14x meiri í endurnýtingarstöðvum og þetta er örugglega varlega áætlað. Hvaða fallvötn eigum við t.d. að virkja til að framleiða orku fyrir umfangsmikið laxeldi á landi?“ spyr Ólafur.

Eitt hrogn af hverjum þúsund hafa það af
Hann segir að það muni alltaf gerast að fiskur sleppi úr kvíum út í náttúruna þó mjög hafi dregið úr slíkum uppákomum síðustu ár, m.a. vegna traustari búnaðar og vandaðri verkferla. En er það ekki ógn við villta íslenska laxastofna?

„Því getur auðvitað enginn svarað en ég tel að ógnin sé lítil og get fært rök fyrir því. Sá norski laxastofn sem notaður er hér í eldi hefur þegar verið kynbættur í tólf kynslóðir. Kynbæturnar hafa einkum verið með vali fyrir auknum vaxtarhraða en gegn ótímabærum kynþroska. Eldislaxinn er því orðinn þróað húsdýr sem á litla möguleika á að komast af í villtri náttúru. Lífsmöguleikarnir í náttúrunni velta á hversu lengi fiskurinn hefur verið við eldisaðstæður. Þannig eru mestar líkur á að nýútsett gönguseiði (50-100g) sem sleppur og syndir til hafs geti lifað af, nái að verða kynþroska og gangi upp í ár til að hrygna. Lífslíkur stærri fiska sem sleppa eru hverfandi litlar. Norskar reynslutölur sýna að sífellt færri eldislaxar ganga upp í árnar, sem eru skýr merki þess hve mikið húsdýr eldislaxinn er orðinn. Gangi kynþroska eldislax upp í á sýna niðurstöður að æxlunarárangur hans er mjög skertur, 1-3% hjá hængum og um 30% hjá hrygnum. Takist fiskinum að hrygna sýna niðurstöður einnig að afkvæmi eldislaxa og blendinga eldislaxa og villtra hafa mjög skerta afkomumöguleika í náttúrunni. Náttúruvalið lemur látlaust á og er gríðarleg þvottavél. Hjá villtum fiski nær aðeins eitt hrogn af hverjum þúsund að ljúka lífsferlinum, verða að fiski sem hrygnir.“ Ólafur segir að því séu hverfandi líkur á erfðablöndun eða ef hún verður að það hafi einhver sérstök áhrif á villta laxastofna eftir því sem hann fær séð.

Ólafur bendir á að ný rannsókn, sem reynir að meta áhrif erfðablöndunar, komist að þeirri niðurstöðu að þó hlutfall eldislax í á væri 5-10% af heildar klakfiskafjölda hefði það vart mælanleg áhrif á erfðasamsetningu stofnsins og ef einhver eru þau afturkræf.

Hrun laxastofna í N- Atlantshafi hófst áður en laxeldi var orðið svo nokkru nam

„Við skulum hafa í huga að norskur eldislax og villtur íslenskur lax er sama tegundin en með ólíka samsetningu erfðasamsæta sem henta mis vel í villtri náttúru. Að villtir laxastofnar muni hrynja eða hafi hrunið vegna innblöndunar við eldisfisk er ekki rétt. Hrun laxastofna í N-Atlantshafi hófst áður en laxeldi var orðið svo nokkru nam, og varð sérstaklega mikið um miðjan 9. áratuginn. Hrunið hefur einnig orðið mest í þeim löndum þar sem ekkert laxeldi er. Náttúrulegar breytingar í hafi auk margskonar athafna manna og afleiðingar þeirra, svo sem framræsla lands, stíflugerð, súrt regn og önnur mengun eiga sinn þátt í því. Villti laxinn stendur einna sterkast í Noregi. Þar, og reyndar víðar, eru urriðastofnar einnig aftur á uppleið, þrátt fyrir að Norðmenn framleiði um 1,3 milljónir tonna af laxi í kvíum. Menn þurfa því að leita betri skýringa á sveiflum eða hnignun laxa í villtri náttúru.“

Villta laxastofninum stafar meiri ógn af öðru sem innblöndun við eldislax

Hann segir að þróun kvíaeldisins hjá Arnarlaxi og raunar hvarvetna í Atlantshafi sé í þá átt að setja fiskinn stærri í kvíarnar og eru Færeyingar komnir einna lengst í þeim efnum og reynslan góð að mati Ólafs.

„Tilgangurinn er að stytta framleiðslutímann í sjó og draga úr framleiðsluáhættu í kvíaeldinu. Þessi aðgerð leiðir einnig til þess að hverfandi líkur eru á að fiskur sem sleppur komist af í villtri náttúru. Auðvitað mun einn og einn eldislax ganga upp í ár,- jafnvel geldhrygnur eins og sagt var að hafi veiðst í Vatnsdalsá, sem er reyndar afar óvenjulegt að geldur fiskur geri. Villta laxinum stafar hinsvegar örugglega meiri ógn af öðru en innblöndun við eldislax virðist mér. Við þurfum hins vegar að vanda okkur í fiskeldinu, setja skynsamlegar reglur út frá raunverulegri þekkingu og reynslu og fara eftir þeim.“

„Það skyldi nú bara vanta…“

Að mati Ólafs eiga Íslendingar mikil ónýtt tækifæri í fiskeldi og kvíaeldi á laxi sé eitt þeirra. „Engum dylst hvað núverandi laxeldi hefur orðið mikil lyftistöng fyrir byggðirnar þar sem það fer fram. Það skyldi nú bara vanta í íslenskt samfélag að við berðumst gegn ó-ríkisstyrktri, afkastamikilli, hollri og vistvænni matvælaframleiðslu sem fram fer í hinum dreifðu byggðum landsins,“ segir Ólafur að lokum.

Síða 4 af 42« Fyrsta...23456...102030...Síðasta »