10 þúsund tonna laxaframleiðsla hafin á Austfjörðum

10 þúsund tonna laxaframleiðsla hafin á Austfjörðum

Áfangar nást þessa dagana hjá austfirsku laxeldisfyrirtækjunum. Nýjar og öflugar sjókvíar hafa verið settar upp í Berufirði og Reyðarfirði og norskt leiguskip, svokallaður brunnbátur, er að flytja laxaseiði frá seiðastöðvum fyrirtækjanna í Þorlákshöfn. Á bilinu 1800 til 1900 þúsund seiði eru sett út þessa dagana og mun það skila um 10 þúsund tonnum af laxi í fyllingu tímans.
Fiskeldi Austfjarða er að færa sig úr eldi regnbogasilungs yfir í laxeldi. Lokið verður við að slátra regnboganum upp úr kvíunum á þessu ári. Félagið setti út fyrstu laxaseiðin á síðasta ári og hafa þau vaxið vel. Hefst slátrun fyrir áramót.
Þessa dagana er fyrirtækið að ljúka flutningum á seiðum frá seiðastöðinni Ísþór í Þorlákshöfn og setja í nýjar kvíar á nýjum stað í Berufirði. Eru það um 850 þúsund seiði, nokkuð stór eða um 300 grömm á þyngd, og hefst slátrun á þeim í lok næsta árs.Fiskeldi Austfjarða
Fyrstu seiðin í sjó
Laxar fiskeldi er að setja út sjókvíar í Reyðarfirði og í lok vikunnar hefjast flutningar á nærri milljón seiðum frá stöð fyrirtækisins í Þorlákshöfn. Eru það fyrstu seiði fyrirtækisins sem fara í sjó. Seiðin eru á bilinu 100 til 300 grömm að þyngd og verða stærstu laxarnir fullvaxnir og tilbúnir til slátrunar undir lok næsta árs.
Bæði fyrirtækin hafa verið að byggja sig upp tæknilega. Hafa keypt stóra fóðurpramma og þjónustubáta.
Fiskeldi Austfjarða er með aðstöðu á Djúpavogi og slátrar þar sínum laxi. Laxar hafa komið sér upp starfsstöð á Eskifirði. Ekki hefur verið ákveðið hvar fiskinum verður slátrað. Laxar hafa leyfi til framleiðslu á 6 þúsund tonnum í Reyðarfirði og fullnýta það leyfi í ár. Einar Örn Gunnarsson, stjórnarmaður og einn stofnenda, segir að sótt hafi verið um leyfi til stækkunar og vonast hann til þess að það fáist þannig að hægt verði að halda áfram uppbyggingunni á næsta ári.
Fullvaxnir eftir 1,5 til 2 ár
Þau 1.800 til 1.900 þúsund seiði sem fara í sjó í ár eiga að skila tæplega 10 þúsund tonnum af afurðum í lok næsta árs og fyrrihluta árs 2019, ef allt gengur að óskum.

 

Engar ábendingar um efnislega annmarka á starfsleyfinu

Engar ábendingar um efnislega annmarka á starfsleyfinu

Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá því í fyrradag er fellt úr gildi starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á vegum fyrirtæksins Háafells í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Eins og Umhverfisstofnun (UST) bendir á í tilkynningu á heimasíðu sinni, koma ekki fram ábendingar í úrskurði nefnarinnar um efnislega annmarka á starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Enda segir ma í úrskurðinum: „Óumdeilt er að Umhverfisstofnun gaf umsagnir í tilefni af mati á umhverfisáhrifum umrædds fiskeldis og dregur úrskurðarnefndin í sjálfu sér ekki í efa að álit Skipulagsstofnunar hafi verið lagt til grundvallar hinu kærða starfsleyfi.“ Athugasemdir nefndarinnar lúta einkanlega að málsmeðferð og formsatriðum, sem skipta vissulega miklu máli.

Áhrif strokufisks úr eldinu gætu orðið óveruleg til nokkuð neikvæð. Áhrifin yrðu þó tímabundin og afturkræf segir í áliti Skipulagsstofnunar

Nokkur helstu efnisatriðin í úrskurði úrskurðarnefndarinnar
Hér verða rakin nokkur helstu efnisatriði í úrskurði nefndarinnar.
1. Ljóst er að athugasemdir úrskurðarnefndarinnar lúta að afgreiðslu Umhverfisstofnunar en ekki að verklagi fyrirtækisins sem starfsleyfið fékk.
2. Í úrskurði nefndarinnar er ekki verið að fella dóm um efnisatriði starfsleyfisins. Einvörðungu er um það að ræða að nefndin telur galla á málsmeðferðinni.
3. Veiðifélögin í Haffjarðará og Laxá á Ásum sem kærðu leyfisveitinguna voru EKKI talin hafa lögvarða hagsmuni.
4. Nefndin bendir á að öllum leyfisveitendum beri að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum.
5. Nefndin telur að á skorti í afgreiðslu UST um tilvísanir í álit Skipulagsstofnunar.
6. Í úrskurði nefndarinnar segir: Óumdeilt er að Umhverfisstofnun gaf umsagnir í tilefni af mati á umhverfisáhrifum umrædds fiskeldis og dregur úrskurðarnefndin í sjálfu sér ekki í efa að álit Skipulagsstofnunar hafi verið lagt til grundvallar hinu kærða starfsleyfi. Að því er hins vegar fundið að ekki sé með nægjanlega skilmerkilegum hætti vitnað í þetta álit.
7. Gagnrýnt er að greinargerðin frá UST sé ekki dagsett ( !!!!)
8. Birting niðurstöðu UST um starfsleyfi hafi tafist um of og þar sé heldur ekki að finna tilvísun í kæruheimildir og kærufresti.
9. Leita hefði átt álits hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar.
10. Athyglisvert er að úrskurðarnefndin kemst að þeirri frumlegu niðurstöðu að „telst sá fiskur veiddur sem sleppt er“. Er hér vísað til svo kallaðrar „veiða og sleppa“ aðferðar og sem getur leitt til þess að sami einstaklingurinn úr stofni laxa sem gengur í ár sé veiddur marg oft á sama veiðitímabilinu. Sem dæmi má þá nefna að séu 30 fiskar veiddir fimm sinnum yfir veiðitímabilið þá teljist veiðin 150 fiskar !!
11. Í úrskurðinum er vitnað til mats Skipulagsstofnunar þar sem segir: Áhrif strokufisks úr eldinu gætu orðið óveruleg til nokkuð neikvæð á náttúrulega stofna laxfiska í ám við innanvert Ísafjarðardjúp, sem fælust fyrst og fremst í hættu vegna smitsjúkdóma og réðust af umfangi slysasleppinga. Áhrifin yrðu þó tímabundin og afturkræf.

Vissulega veldur sú niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fella starfsleyfið úr gildi vonbrigðum en athygli vekur að hún snýr að málmeðferð en ekki efnisatriðum.

Frá Ísafjarðardjúpi. Því var haldið fram í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær að fiskeldisleyfi væru veitt á færibandi. Staðreyndin er hins vegar sú að frá því að breytingar sem Alþingi gerði á lögunum um fiskeldi og tóku gildi 1. janúar 2015, hefur aðeins eitt leyfi verið veitt og var þar um að ræða stækkun á þegar gildandi starfs- og rekstrarleyfi. Vilji menn kalla þetta færibandaafgreiðslu, hlýtur þetta að vera hæggengasta færiband í heimi !

Hægvirkasta færiband í heimi !
Þá er rétt að benda á að úrskurður úrskurðarnefndarinnar sýnir svart á hvítu að engin innistæða er fyrir því sem oft er haldið fram að leyfi til fiskeldis renni sem á færibandi í gegn um þær stofnanir sem veita álit,starfsleyfi og rekstrarleyfi. Ekkert er fjær sanni. Þvert á móti sýnir úrskurðurinn að reglurnar eru strangar, lögin gera ríkar formkröfur til stofnana sem um leyfin véla og málin þokast löturhægt í gegn um það ferli allt. Því var haldið fram í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær að fiskeldisleyfi væru veitt á færibandi. Staðreyndin er hins vegar sú að frá því að breytingar sem Alþingi gerði á lögunum um fiskeldi og tóku gildi 1. janúar 2015, hefur aðeins eitt leyfi verið veitt og var þar um að ræða stækkun á þegar gildandi starfs- og rekstrarleyfi. Vilji menn kalla þetta færibandaafgreiðslu, hlýtur þetta að vera hæggengasta færiband í heimi !

Umhverfisstofnun hefur á heimasíðu sinni, www.ust.is brugðist við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Er það gert með eftirfarandi hætti.
Hlutverk einstakra stofnana verði skýrt frekar
Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá í gær er fellt úr gildi starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi í innanverðu Ísafjarðardjúpi.
Umhverfisstofnun bendir á að þau atriði sem tilgreind eru sem helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðs fiskeldis í innanverðu Ísafjarðardjúpi (aukin hætta á fisksjúkdómum) falla undir verksvið Matvælastofnunar. Ekki koma fram ábendingar um efnislega annmarka á starfsleyfi Umhverfisstofnunar.
Skylda Umhverfisstofnunar til að útbúa flokkunarkerfi um álag af völdum mengunar af sjávarbotni kemur fram í 11. gr. laga um stjórn vatnamála. Kveðið var á um það í starfsleyfinu sem nú hefur verið fellt úr gildi að rekstraraðila bæri að sjá til þess að vatnsgæðum í viðtaka hrakaði ekki og tekið fram að heimilt væri að endurskoða leyfið s.s. ef ástand vatns færi hrakandi vegna rekstrarins og hætta væri á að það félli niður um flokk.
Fram kemur í úrskurðinum að formgallar hafi verið á málsmeðferð Umhverfisstofnunar.
o Áhersla er lögð á að fram komi með skýrum hætti við útgáfu starfsleyfis afstaða stofnunarinnar til mats á umhverfisáhrifum. Umhverfisstofnun hefur bætt úr þessu við afgreiðslu nýrri starfsleyfa. Úrskurðarnefndin tekur þó fram að hún dragi ekki í efa að álit Skipulagsstofnunar hafi verð lagt til grundvallar starfsleyfinu.
o Þegar hefur verið bætt úr öðrum helstu ábendingum sem fram koma í úrskurðinum í nýrri ákvörðunum stofnunarinnar varðandi málsmeðferð og ættu önnur starfsleyfi því ekki að vera í uppnámi.
Ljóst er að ábending úrskurðarnefndarinnar varðandi hvaða regla gildi um fjarlægðarmörk byggir á veiðihagsmunum fremur en lífrænu álagi. Umhverfisstofnun leitaði leiðbeininga Matvælastofnunar þegar tekin var afstaða til þessa atriðis til að gæta samræmis við lög um fiskeldi.
• Úrskurðurinn gefur að mati Umhverfisstofnunar tilefni til að skýra nánar hlutverk einstakra stofnana hvað varðar fiskeldi en stofnunin hefur þegar komið á framfæri ábendingum þar um til nefndar um stefnumótun í fiskeldi sem starfar á vegum atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins.

Rúmlega þriggja milljarða seiðaeldisstöð í Tálknafirði

Rúmlega þriggja milljarða seiðaeldisstöð í Tálknafirði

Ein fullkomnasta seiðaeldisstöð heims rís nú í botni Tálknafjarðar á vegum Arctic Fish þar sem megnið af vatninu sem rennur í gegn verður endurnýtt. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í fyrrakvöld og var rætt við Sigurð Pétursson, framkvæmdastjóra Arctic Fish á Vestfjörðum.

Sigurður Pétursson framkvæmdastjóri Arcitc fish:: „Við erum búnir að vera lengi að vinna í stækkun. Bara í Dýrafirði, – af því að það er verið að tala stundum um að þetta sé að ganga allt of hratt, – þá fór ég með köku um daginn til MAST, af því að það eru fimm ár síðan við erum búnir að vera með áform þar um stækkun, sem ekki er komin í gegn samt sem áður

Rúmlega þriggja milljarða fjárfesting

Arctic Fish, sem áður hét Dýrfiskur, er að leggja yfir þrjá milljarða króna í seiðaeldisstöð sem verður sú stærsta á landinu og sú fyrsta sinnar tegundar. Nýbreytnin felst í því að þetta verður svokölluð endurnýtingarstöð þar sem um 85 prósent af vatninu verður endurnýtt.
Endurnýting á vatninu
„Ein svona stöð, þótt hún sé stór, er að taka inn í mesta lagi 15 lítra á sekúndu. En svo endurnýtir hún það. Það er bara eins og þú sért að láta renna í baðkarið hjá þér. Við endurnýtum það þannig að úr verður flæði sem er svipað og Elliðaárnar eða meira,” segir Sigurður.
Seiðaeldisstöðin verður grunnur laxeldis Arctic fish
Seiðaeldisstöðin verður grunnur laxeldis fyrirtæksins en hjá því starfa nú alls um sjötíu manns, þar af um þrjátíu við uppbygginguna á Tálknafirði. Aðalsjóeldi Arctic Fish er hins vegar í Dýrafirði.
Fimm ára bið eftir leyfi

„Við erum búnir að vera lengi að vinna í stækkun. Bara í Dýrafirði, – af því að það er verið að tala stundum um að þetta sé að ganga allt of hratt, – þá fór ég með köku um daginn til MAST, af því að það eru fimm ár síðan við erum búnir að vera með áform þar um stækkun, sem ekki er komin í gegn samt sem áður,” sagði Sigurður.

Hann kveðst hins vegar hafa skilning á því að menn vilji fara varlega.

„Já, já. Maður verður náttúrlega að skilja það að hlutirnir þurfa að byggjast upp á ábyrgan hátt. Við skiljum það. En við myndum vilja sjá hlutina ganga hraðar.”

Konurnar töfruðu Vestfirðinga með söng og nutu sjálfar vestfirsks lostætis

Konurnar töfruðu Vestfirðinga með söng og nutu sjálfar vestfirsks lostætis

Halldór Valsson matreiðslumeistari á Hótel Ísafirði sá eldar lax.

Gígjan, Landsamband íslenskra kvennakóra hélt landsmót sitt á Ísafirði fyrir skemmstu og mættu um 300 konur víðsvegar af landinu.

Eins og við var að búast var sungið í hverju horni og settu kórakonur skemmtilegan svip á bæjarlífið, en mótið stóð frá fimmtudegi til sunnudags.

Konurnar upplifðu margt hið besta sem norðanverðir Vestfirðir hafa upp á að bjóða, nutu hinnar einstöku vestfirsku náttúru og bæjarlífsins á Ísafirði. Maturinn var heldur ekki af verra taginu; boðið var upp á gómsætan vestfirskan eldislax frá fyrirtækinu Arnarlaxi á Bíldudal, steinbít frá Flateyri ( vestfirskara getur það ekki verið)  ásamt öðru góðgæti sem kokkarnir á Hótel Ísafirði töfruðu fram af sinni alkunnu snilld.

Hápunktur landsmótsins var svo þegar kórarnir fluttu frumsamið lag eftir ungt ísfirskt tónskáld Halldór Smárason, við ljóð Haralds Stígsonar frá Horni.

Það var mál kvennanna í kórunum að mótið hefði heppnast sérlega vel og öll umgjörð eins og best verður á kosið.

Auknar fjárfestingar framundan og fjölgun starfa fáist til þess leyfi

Auknar fjárfestingar framundan og fjölgun starfa fáist til þess leyfi

Ný kví sett út fyrir utan flugvöllinn í Patreksfirði.

Eldisstarfsemi fiskeldisfyrirtækisins Arcitc fish  hófst í Dýrafirði og þar er enn helsta starfsstöð félagsins í sjóeldinu. Sjö starfsmenn eru við þann hluta starfseminnar. Vinnsla afurða hefur verið í Ísafjarðarbæ, bæði á Flateyri og Ísafirði en á síðarnefnda staðnum er einnig skrifstofa Arctic Fish þar sem starfsmenn eru fjórir talsins. Við vinnsluna sjálfa starfa að jafnaði 20 starfsmenn. Á Tálknafirði er seiðaeldi félagsins með 8 föstum starfsmönnum. Við uppbygginu á aðstöðu þar hafa um 10 manns starfað og fleiri þegar meira er umleikis, á fjórða tug þegar mest er. Framundan eru síðan auknar fjárfestingar og ef leyfi sem sótt hefur verið um fást, er ljóst að ráða þarf ennþá fleira fólk til starfa. Þetta kemur fram í viðtali við Sigurð Pétursson framkvæmdastjóra Arctic fish, sem birtist í Sóknarfæri, fylgiriti Morgunblaðsins.

„Frekari leyfisveitingar eru forsenda þess að fyrirtækið nái ákveðinni stærðarhagkvæmni og verði samkeppnishæft á afurðamörkuðum,“ segir Sigurður Pétursson framkvæmdastjóri og einn eigenda fiskeldisfyrirtækisins Arctic Fish. Félagið er 6 ára gamalt, var stofnað árið 2011 og þá með einum starfsmanni, framkvæmdastjóranum, en hefur heldur betur vaxið fiskur um hrygg á þeim tíma sem liðin er. Starfsemin fer nú fram víða á Vestfjörðum; Á Ísafirði, Dýrafirði, Flateyri og Tálknafirði og starfsmenn eru um 40 talsins auk þess sem 10 til 30 starfsmenn vinna við uppbyggingu á nýrri seiðaeldisstöð félagsins. Arctic Fish er nú með starfsleyfi fyrir regnbogasilung en áformar að skipta yfir í lax.

„Okkar markmið allt frá því félagið var stofnað fyrir 6 árum var að byggja upp frá grunni eldis- og framleiðslufyrirtæki þannig að eldið færi fram í náttúrulegu íslensku umhverfi. Hér á Íslandi höfum við aðgang að heitu og köldu tæru vatni, grænni orku, lágri tíðni fisksjúkdóma auk hreinnar náttúru, sem gefur okkur möguleika á sérstöðu þegar kemur að uppruna eldis. Þetta var grundvöllur okkar við stofnun félagsins,“ segir Sigurður, en stofnendur höfðu allir reynslu af framleiðslu og sölu eldisafurða. Þar má nefna félaga hans, Guðmund Stefánsson sem stýrir dreifingafyrirtækinu Novo Food í Frakklandi. Stærsti stofneigandinn er Jerzy Malek og samstarfsmenn hann, en þeir hafa byggt upp í Póllandi stærstu vinnslu á laxaafurðum þar í landi og taka einnig þátt í eldisstarfsemi utan lands.

Mikilvægt að læra inn á ferlið og aðstæðurnar

Seiðaeldisstöð Arctic Fish er við Tálknafjörð og þar hefur á liðnum misserum verið unnið að endurbótum og stækkun.

Þegar einungis fáir mánuðir voru liðnir frá stofnun félagsins festi það kaup á sjókvíaeldisfyrirtækinu Dýrfiski, sem þá hafði hafið starfsemi í silungaeldi í kvíum í Dýrafirði. Tveir starfsmenn voru á þeim tíma að störfum við sjókvíaeldið og starfsmenn hjá Arctic Fish í heild því orðnir þrír. Félagið hefur vaxið hröðum skrefum á þessum 6 árum sem liðin eru frá því fyrstu skrefin voru tekin. Á þeim tíma sem Arctic Fish keypti Dýrfiski var fiskurinn komin í sláturstærð, magnið var ekki mikið en engu að síður vantaði vinnslu til að vinna hann og segir Sigurður að því hafi verið ráðist í kaup á vinnslu á Flateyri, Arctic Odda, sem áður hafði verið í bolfiskvinnslu.

„Við gerðum okkur ljóst frá upphafi að grunnurinn að uppbyggingu félagins lægi í því að byggja upp góða seiðaeldisstöð svo hægt væri að efla eldið enn frekar. Þegar félagið var ársgamalt keyptum við gamla seiðaeldisstöð í botni Tálknafjarðar, Norður-Botn, en þar er gott jarðnæði til uppbyggingar og við höfum aðgang bæði að heitu og köldu vatni auk þess sem nálægðin við sjóinn er kostur, m.a. þegar sjógönguseiði eru sett út. Við héldum áfram uppbyggingu í Tálknafirði og byggðum þar til viðbótar nýja seiðaeldisstöð til viðbótar þeirri sem fyrir var,“ segir Sigurður.

Félagið hóf starfsemi sína í kringum silungaeldi, tekið var eitt skref í einu og byggt upp. Sigurður segir að mönnum hafi verið í mun að læra inn á ferlið og þær aðstæður sem búið var við, en þær eru um margt sérstakar, þó svo að einhverju leyti svipi þeim til þess sem gerist í norðanverðum Noregi.

Vinnslutími vegna leyfisveitinga allt upp í 5 ár

„Þegar við hófum okkar starfsemi voru við með 200 tonn eldisleyfi sem síðar var aukið upp í 2.000 tonn. Það tekur gríðarlega langan tíma að vinna við leyfisumsóknir, mikil undirbúningsvinna að baki áður en leyfi eru gefin út. Eldisleyfi hafa mikið verið í umræðunni undanfarið og af henni má ráða að verið sé að veita fjöldann allan af leyfum en svo er ekki. Síðast var veitt sjókvíaeldisleyfi fyrir um það bil ári síðan, en það var stækkun í Arnarfirði. Við höfum verið að vinna að stækkun í Dýrafirði og sótt um leyfi til þess, vinnslutíminn á því hefur verið rúm 5 ár,“ segir Sigurður. „Til að greinin nái að byggjast upp til framtíðar og á ábyrgan hátt er mikilvægt að iðnaðurinn, sveitarfélögin og stjórnsýslan eigi sér sameiginleg markmið um uppbygginguna. Stjórnvöld í okkar nágrannalöndum hafa gefið út stefnu í þessum efnum, þ.e. hvernig standa á að uppbyggingu sjókvíaeldis.

Eldisstarfsemi félagsins hófst í Dýrafirði og þar er enn helsta starfsstöð félagsins í sjóeldinu. Sjö starfsmenn eru við þann hluta starfseminnar. Vinnslan afurða hefur verið í Ísafjarðarbæ, bæði á Flateyri og Ísafirði en á síðarnefnda staðnum er einnig skrifstofa Arctic Fish þar sem starfsmenn eru fjórir talsins. Við vinnsluna sjálfa starfa að jafnaði 20 starfsmenn. Á Tálknafirði er sem fyrr segir seiðaeldi félagsins með 8 föstum starfsmönnum. Við uppbygginu á aðstöðu þar hafa um 10 manns starfað og fleiri þegar meira er umleikis, á fjórða tug þegar mest er.

Mikil og sýnileg áhrif

„Fyrir þessi smærri þorp þar sem mest af okkar starfsemi fer fram hefur uppbygging Arctic Fish haft mikil og sýnileg áhrif. Bein störf í kringum hana eru á sjötta tuginn og ætla má að annað eins af óbeinum störfum í tengslum við starfsemina hafi skapast. Það er staðreynd að íbúum á suðurfjörðum Vestfjarða hefur fjölgað eftir að fiskeldi hófst á svæðinu, eftir umtalsverða fækkun árin á undan. Atvinnuleysi er einnig minna en áður var,“ segir Sigurður. Með áframhaldandi uppbyggingu félagsins og enn þróttmeira starfi megi gera ráð fyrir að störfum fjölgi frá því sem nú er.

Umhverfisstaðallinn mikilvægur

Arctic Fish og dótturfélög þess náðu á liðnu ári að uppfylla hinn eftirsóknarverða umhverfisstaðal, ASC; Aquaculture Stewardship Council og var fyrst íslenskra eldisfyrirtækja til að ná þeirri vottun. Sigurður segir að um sé að ræða vottun sem sé hliðstæð MSC staðli, sem er þekktasta umhverfisstaðllinn fyrir sjávarafurðir. Samtökin að baki ASC staðlinum eru óháð og ekki rekin í hagnaðarskyni. „Við erum nú komin með staðal sem byggir á rekjanleika, allt frá eggi og fiski og inn á borð hins almenna neytenda, en að baki liggur að uppfylla þarf ströng umhverfisskilyrði. Okkar eldisaðferðir og ósnortin náttúra Íslands gefa fyrirtækinu ákveðið forskot til að uppfylla þessi skilyrði. Enn sem komið er hafa ekki mörg fyrirtæki sem stunda laxfiskaeldi náð þessari vottun.“

Öflugt norskt fiskeldisfélag til liðs við Arctic Fish

Sigurður Pétursson framkvæmdastjóri Arctic fish: Við höfum verið að vinna að stækkun í Dýrafirði og sótt um leyfi til þess, vinnslutíminn á því hefur verið rúm 5 ár

Síðastliðið haust gerðist norska félagið Norway Royal Salmon, NRS hluthafi í Arctic Fish og segir Sigurður það mikila viðurkenningu fyrir félagið. Fiskeldi sé í eðli sínu mjög fjárbindandi, einkum meðan á uppbyggingu stendur. Það hafi því verið mikilvægt að fá hina norsku kollega inn í félagið. „Við höfðum verið að leita samstarfsfélaga, aðallega hér innanlands þegar þeir hjá NRS höfðu samband við okkur að fyrrabragði síðasta sumar,“ segir hann, en ekki hvað síst er mikilvægt að fá inn í félagið þá reynslu og þekkingu sem Norðmenn búa yfir í þessum iðnaði, einkum í Norður-Noregi. NRS á nú helming hlutafjár í Arctic Fish en þeir lögðu fram aukið hlutafé við innkomu sína.

NRS varð til árið 1992 þegar 34 fiskeldisfyrirtæki í Noregi sameinuðust um stofnun sölu- og markaðsfyrirtækis fyrir eldislax sem og fleiri sameiginlega hagsmuni smærri eldisframleiðenda. Félagið hóf laxeldi árið 2006 undir eigin nafni en sér einnig enn um sölu- og markaðsmál auk stuðnings við aðilarfélög innan NRS. Fyrirtækið var skráð í kauphöll í Osló árið 2010. Félagið er eitt af þeim fiskeldisfyrirtækjum í Noregi sem er í fararbroddi í greininni, eigin laxeldisframleiðsla þess á síðastliðnu ári fór yfir 35 þúsund tonn og rúmlega tvöfalt það magn fór um dreifingakerfi þess til yfir 50 landa víða um heim.

„Það er einkum tvennt sem skiptir sköpum varðandi það að fá NRS sem hluthafa hjá okkur, það tryggir fjármögnun félagsins og við munum njóta góðs af þeirri þekkingu sem félög í fiskeldi á norðlægum slóðum hafa í áranna rás aflað sér. Meginhluti eldis NRS fer fram í norður- Noregi þar sem aðstæður eru á margan hátt sambærilegar og á Vestfjörðum. Markmið beggja félaga, Arctic Fish og NRS er að byggja upp á Íslandi, í umhverfi sem gerir okkur kleift að vera í sjálfbæru og vistvænu fiskeldi,“ segir Sigurður.

Meiri sveiflur á silungamarkaði

Hann segir að frá upphafi hafi Arctic Fish gengið ágætlega að selja gæðavöru, eldisafurðir af Vestfjörðum, „en vissulega skiptast í þessum iðnaði eins og annars staðar á skin og skúrir.“ Helsta áfallið var þegar markaðir lokuðust í Rússlandi, þó svo að félagið hefði ekki verið að selja beint inn á þann markað hafði lokunin áhrif víða enda um að ræða stærsta markaðinn fyrir silung í heiminum. „Það varð á skömmum tíma mikið verðhrun á silungi og hafði að auki tímabundin áhrif á verð á laxi, á þeim vettvangi náðist að rétta fljótt úr kútnum, sá markaður hefur undanfarin ár verið mjög sterkur,“ segir Sigurður. Nokkur munur sé á markaði fyrir lax og silung, sveiflur eru meiri á markaði fyrir silung og er það ein megin ástæða þess að félagið leggur nú áherslu á að byggja upp laxeldi.

Stefna á frekari uppbyggingu fyrir vestan

Arctic Fish er að sækja um 8 þúsund tonna laxeldisleyfi í Ísafjarðardjúpi. Það er nú með 4 þúsund tonna starfsleyfi fyrir regnbogasilung en áformar að skipta yfir í lax. Á næstu árum er einnig fyrirhugað að setja út seiði í Patreksfirði og Tálknafirði og eru leyfisveitingar þar um á lokavinnslustigi. Með því færir félagið út kvíarnar, en sjókvíaeldið fer nú einugins fram í Dýrafirði. Byggð hefur verið upp endurnýtingastöð fyrir seiðaeldi félagsins í Tálknafirði og segir Sigurður að ef leyfismálin varðandi Ísafjarðardjúp klárist á næstu misserum ætti afkastageta í seiðaeldinu að aukast þannig að mögulegt væri að hefja eldi í Ísafjarðardjúpi jafnvel á næsta ári. „Frekari leyfisveitingar eru forsenda fyrir því að fyrirtækið nái ákveðinni stærðarhagkvæmni og verði samkeppnishæft á afurðamörkuðum. Við erum nú þegar með talsverða starfsemi á Vestfjörðum en höfum hug á að auka þar vel við, stefnum að því að fjölga störfum og fara út í meiri fjárfestingar að því gefnu að leyfisumsóknir félagsins fái jákvæða afgreiðslu,“ segir Sigurður.

Síða 30 af 42« Fyrsta...1020...2829303132...40...Síðasta »