Fiskeldi gæti aukið íbúafjöldann við Djúp um 20 prósent

Fiskeldi gæti aukið íbúafjöldann við Djúp um 20 prósent

Bein og óbein efnahagsáhrif af 25 þúsund tonna fiskeldi í Ísafjarðardjúpi gætu numið um 23 milljörðum króna. Bein störf verða 260 og óbein um 150 eða alls um 410. Þegar fjöldi beinna og óbeinna starfa hefur náð þessari tölu má áætla að laxeldið hafi áhrif til fjölgunar íbúa um 900 manns í sveitarfélögunum við Djúp, eða sem svarar til um það bil 20 prósent fjölgunar.
Þetta kemur fram í skýrslu og greiningu sem ráðgjafarsvið KPMG vann fyrir Fjórðungssamband Vestfjarða um áhrif laxeldis í Ísafjarðardjúpi á efnahag og íbúaþróun byggðanna við Djúp.

Ísafjörður

Ísafjörður: Bein og óbein efnahagsáhrif af 25 þúsund tonna fiskeldi í Ísafjarðardjúpi gætu numið um 23 milljörðum króna.

Bein störf 260 og óbein störf 150 ársverk
Fjöldi starfa (bein og óbein) eru talin verða mest á tíunda ári eftir að leyfi verða gefin út, en eftir það taki við hagræðingartímabil. Frekari uppbygging í stoðþjónustu og úrvinnslu á svæðin gæti þó breytt þessu. Bein störf eru talin verða um 260, og eru óbein og afleidd áhrif talin skapa um 150 ársverk til viðbótar. Því eru það samtals 410 störf sem framleiðsla á 25. þúsund tonnum af laxi á ársgrundvelli er talið skapa í sveitafélögunum við Djúp. Um 900 íbúar eru því taldir byggja afkomu sína á laxeldi á þessum tíma.

Bolungarvík: Bein störf verða 260 og óbein um 150 eða alls um 410 við Ísafjarðardjúp með 25 þúsund tonna fiskeldi

Íbúum við Djúp gæti fjölgað um 900
Með vísan í forsendurnar þrjár hér til hliðar og útreikninga á fjölda starfa hér að framan er áætlað að þegar fjöldi beinna og óbeinna starfa nái hámarki eða 410 eftir 11 ár má áætla að laxeldið hafi áhrif til fjölgunar íbúa um 900 manns í sveitafélögunum við Djúp, eða sem svarar til um það bil 20% fjölgunar.
Gert er ráð fyrir 25 þúsund tonna framleiðslu
Áætlað er að hámarksfjöldi beinna starfa verði um 260 sem næst á ári 7 eftir að framleiðsla hefst. Ekki er gert ráð fyrir meiri framleiðslu en 25 þús. tonnum og þess vegna fer beinum störfum að fækka vegna hagræðingar í greininni. Þess má þó geta að Hafrannsóknastofnunin metur að Ísafjarðardjúp þoli 30 þúsund tonna eldi, samkvæmt burðarþolsmati stofnunarinnar.
Í öllum samanburðarlöndunum hefur greinin farið í gegnum hagræðingu þegar hægir á magnaukningu í framleiðslunni sem hefur valdið fækkun á störfum til frambúðar. Gert er ráð fyrir að slíkt hið sama verði tilfellið hér á Íslandi.
150 óbein störf
Við mat á óbeinum og afleiddum áhrifum var stuðst við tölur frá Noregi og Írlandi. Notaður var stuðullinn 2,59 (frá Noregi) í upphafi sem lækkar síðan í stuðulinn 1,41 (frá Írlandi), því allar líkur eru á að ruðningsáhrifa fari að gæta þegar atvinnugreinin vex með þeim hraða sem hér er spáð.
— Hlutfall beinna og óbeinna áhrifa er 2,59 í Noregi og er þar ekki tekið eins mikið tillit til mögulegra ruðningsáhrifa sem starfsemin getur haft í för með sér.
— Sambærilegur stuðull er 1,41 á Írlandi enda er tekið frekara tillit til áætlaðra ruðningsáhrifa þar.

Súðavík: Folki gæti fjölgað um 20% í byggðarlögunum við Djúp með tilkomu fiskeldis.

Áætlað er að hámarksfjöldi óbeinna starfa verði um 150 sem næst á ári 7 eftir að framleiðsla hefst. Ekki er gert ráð fyrir meiri framleiðslu en 25 þús. tonn og vegna þess fer óbein störfum að fækka vegna hagræðingar í greininni.
Bein áhrif
Áætlað er að hámarksframleiðsla verði 25 þús. tonn. Framleiðsla eykst hraðar í byrjun, en hægja fer á aukningu þar til hún nær hámarki 10 árum eftir að framleiðsla hefst.
Hafa ber í huga að ekki er gert ráð fyrir óvæntum framleiðslubresti í laxeldinu eins og hefur komið fyrir hjá Noregi, Færeyjum og Skotlandi. Því er gert ráð fyrir nokkuð stöðugum vexti þar til framleiðsla nær hámarki.
Áætluð bein áhrif við hámarksframleiðslu nemur 16,7 ma.kr.

Óbein og afleidd áhrif um 23 milljarðar króna
Við mat á óbeinum og afleiddum áhrifum var stuðst við tölur frá Noregi og Írlandi.
—Stuðull frá Noregi milli beinna og óbeinna áhrifa er 2,59 en 1,41 á Írlandi.
—Stuðullinn í Noregi er brúttó þ.e. án ruðningsáhrifa en stuðull í Írlandi er nettó.
—Við mat á stöðu á Íslandi var því notaður áætlaður stuðull fyrir Noreg (2,59) í upphafi þar sem ekki er tekið eins mikið tillit til mögulegra ruðningsáhrifa sem starfsemin getur haft í för með sér.
—Eftir því sem umfang laxeldis vex má gera ráð fyrir að ruðningsáhrif láti á sér kræla. Því er farin sú leið hér að miða við stuðul með ruðningsáhrifum undir lok spátímabilsins (1,41).

Samkvæmt þessu nema bein og óbein áhrif um 23 milljörðum króna.

Laxinn er sérstaklega vinsæll á meðal kvenna

Laxinn er sérstaklega vinsæll á meðal kvenna

Tæplega helmingur aðspurðra í skoðanakönnun í Japan sögðust hafa valið sushi með laxi, þegar þeir borðuðu síðast á veitingastað sem býður sérstaklega upp á þennan vinsæla rétt.
Athyglisvert er að laxinn er sérstaklega vinsæll á meðal kvenna, en rúmlega helmingur þeirra sögðust hafa valið lax.

Þetta kemur fram í Fiskifréttum og byggir frásögn blaðsins á fréttamiðlinum Seafood source. Fréttin í Fiskifréttum er birt hér í heild.http://www.fiskifrettir.is/frettir/kjosa-laxinn-helst/141969/

Neyslumenning Japana hefur gjörbreyst
Tæplega helmingur aðspurðra í skoðanakönnun í Japan sögðust hafa valið sushi með laxi, þegar þeir borðuðu síðast á veitingastað sem býður sérstaklega upp á þennan vinsæla rétt.
Það var stórt japanskt sjávarútvegsfyrirtæki – Maruha Nichiro – sem gerði könnunina, og úrtakið var þúsund manns á aldrinum fimmtán til 59 ára.

SUSHI

Um 1980 borðuðu Japanir ekki hráan lax; í raun ekki fyrr en Norðmenn sjálfir settu af stað sérstakt átak – projekt Japan – til að selja þeim lax í stórum stíl. Það tókst með eftirtektarverðum hætti,

Sjötta árið í röð
Niðurstaða könnunarinnar ætti í raun ekki að koma nokkrum manni á óvart þar sem að þetta er sjötta árið í röð þar sem niðurstaðan er þessi – lax er vinsælasta sjávarfangið á japönskum sushi veitingastöðum, eða helst þeim sem teljast til skyndibitastaða í þessum geira. Eru það þeir staðir þar sem maturinn berst viðskiptavinum á þar til gerðum færiböndum og þekkjast um allan heim.

Laxinn er sérstaklega vinsæll á meðal kvenna en rúmlega helmingur þeirra sögðust hafa valið lax. Þar á eftir var túnfiskur vinsælastur sem 31% sagðist hafa valið. Þegar horft er til beggja kynja er talan ögn lægri, eða 46,3% velja laxinn fyrstan. Ýmsar afurðir túnfisks fylla næstu sæti, en einnig smokkfiskur, hrá rækja og hrossamakríll, svo dæmi séu nefnd. Helstu breytingarnar eru að smokkfiskurinn er að tapa vinsældum sínum og það sama má segja um hrogn hvers konar.

Projekt Japan
Því má bæta við frétt Seafood Source að um 1980 borðuðu Japanir ekki hráan lax; í raun ekki fyrr en Norðmenn sjálfir settu af stað sérstakt átak – projekt Japan – til að selja þeim lax í stórum stíl. Það tókst með eftirtektarverðum hætti, og þegar lax var orðinn jafn vinsæl vara og raun ber vitni í Japan þá opnuðust einnig markaðir fyrir lax í Kína og Singapúr.

Írar hyggjast stórauka laxeldi sitt

Írar hyggjast stórauka laxeldi sitt

Írsk stjórnvöld í samvinnu við hagsmunaaðila stefna að því að stórauka matvælaframleiðslu sína á næstu árum. Hluti af þeirri áætlun er að auka fiskeldi.  Fiskeldi og sjávarútvegur gegna  veigamiklu hlutverki í írsku efnahagslífi, ekki síst í í dreifbýlinu og með eflingu þessara atvinnugreina telja írsk stjórnvöld að hagvöxturinn í landinu skili sér til dreifbýlis jafnt og borganna. Þar með liggur fyrir að Írar stefna í sömu átt og Norðmenn, Færeyingar og Skotar að efla fiskeldi á komandi árum.

Michael Creed: Írsk stjórnvöld eru staðráðin í því að straumlínulaga leyfafirkomulagið í fiskeldi og á sama tíma varðveita náttúru landsins

Írsk stjórnvöld í samvinnu við hagsmunaaðila stefna að því að stórauka matvælaframleiðslu sína á næstu árum. Hluti af þeirri áætlun er að auka fiskeldi, sem gegnir þegar veigamiklu hlutverki á Írlandi, ekki síst í hinum dreifðu byggðum.
Þetta kom fram í ræðu, Michael Creed, landbúnaðar, matvæla og sjávarútvegsráðherra Írlands á ráðstefnu Global Aquaculture Alliance í Dýflini á Írlandi nú nýverið.
Vöxtur í hagkerfinu gagnist ekki bara þéttbýlinu
“Fiskeldi og sjávarútvegur eru mikilvægur hluti hagkerfis Írlands og fyrirtækin eru almennt staðsett á tiltölulega afskekktum stöðum og við strandlengjuna, þar sem tækifæri til uppbyggingar á sjálfbærri atvinnustarfsemi er takmörkuð”, segir Michael Creed. “Við teljum að fiskeldi og sjávarútvegur geti verið sveiflujafnandi í hagkerfinu þannig að vöxtur í hagkerfinu gagnist öllum en ekki bara þéttbýlinu”.
“Þurfum að vaxa hraðar”
Ráðherrann segir að vöxtur í fiskeldi á Írlandi hafi verið nokkur á síðustu árum, “en okkur er ljóst að við þurfum að vaxa hraðar á þessu sviði”.
Stjórnvöld hafa stefnt saman 35 hagsmunaaðilum á sviði fiskeldis, landbúnaðar og fiskveiða og vinnslu, sem hafa fengið það verkefni að setja fram áætlun um aukna matvælaframleiðslu á næstu tíu árum. Áætlunin hefur fengið nafnið FoodWise 2025.
Þurfa að straumlínulaga leyfafyrirkomulagið
Með áætluninni er stefnt að auka matvælaframleiðsluna um 60 prósent á þessum tíma og að útflutningurinn vaxi um 85%. Með þessu auk annarrar virðisaukandi starfsemi á sviði matvælaiðnaðar telja írsk stjórnvöld að fjölga megi störfum á þessu sviði um 23 þúsund.
Írski ráðherrann sagði að mikilvægt sé að fara í gegn um allt leyfafyrirkomulagið sem snýr að fiskeldinu. Segir hann írsk stjórnvöld vera staðráðin í því að straumlínulaga það og á sama tíma varðveita náttúru landsins.

Fiskeldisframleiðslan nær tvöfaldaðist á einum áratug

Fiskeldisframleiðslan nær tvöfaldaðist á einum áratug

Fiskeldisframleiðslan í heiminum fór nálægt því að tvöfaldast á einum áratug, frá árinu 2007 til 2017, samkvæmt tölum frá FAO og samtakanna Global Aquaculture Alliance ( GAA). Þetta kom fram í ræðu sem Ragnar Tveteras viðskiptahagfræðingur við Háskólann í Stavanger í Noregi flutti á fundi síðarnefndu samtakanna nú nýverið.
Framleiðsla einstakra tegunda þróaðist með nokkuð breytilegum hætti. Markmiðið hefur verið að þessi framleiðsla gæti aukist að jafnaði um helming á hverjum áratug. Nú er ljóst að síðustu tíu árin hefur framleiðsluaukningin verið nálægt þessu.
Athuganir Global Aquaculture Alliance ná yfir stærstan hluta heimsframleiðslunnar á eldisfiski. Og þó að framleiðslutölur gefi vísbendingar um nokkuð mismunandi þróun þá er ljóst að framundan er enn frekari vöxtur. Framleiðsla á regnbogasilungi á heimsvísu hefur dregist saman en því er spáð að vöxtur verði í framleiðslu annarra sjó- og vatnagöngufiska. Þannig jókst framleiðsla á atlantshafslaxi um 62 prósent á síðustu tíu ár.
Ragnar Tveteras sagði í ræðu sinni að framundan gæti orðið frekari vöxtur í mörgum greinum fiskeldis, með áframhaldandi nýsköpun og dugnaði.

Mótvægisaðgerðir gegn mögulegri erfðablöndun

Mótvægisaðgerðir gegn mögulegri erfðablöndun

Nýlegar bárust fréttir af því að starfsmenn Fiskistofu kanni nú hvort eldislaxar finnist í ám nærri fiskeldisstöðvum og að þeir hyggist fiska þá upp upp úr ánum ef þeir finnast. Þetta minnir á að fiskeldisfyrirtækin hafa einmitt bent á margs konar leiðir til þess að bregðast við ef eldislax gengur upp í ár. Beita má margvíslegum mótvægisaðgerðum við slíkar aðstæður og reynsla annarra landa af slíku er góð. Það gerir verkefnið auðveldara hér á landi að sýnt hefur verið fram á að hætta á erfðablöndun vegna laxeldis er mjög staðbundin; í raun einskorðast hún við þrjár til fjórar ár. Þetta dæmi frá Fiskistofu sýnir þess vegna að beita má tiltölulega einföldum aðferðum til þess að koma í veg fyrir neikvæðar afleiðingar þess ef eldislax gengur upp í laxveiðiár.

Þetta kemur ma fram í grein sem Einar K. Guðfinnsson formaður Landssambands fiskeldisstöðva skrifaði í www.bb.is í gær. Greinin birtist hér í heild sinni.

Einar Kristinn Guðfinnsson: Þessar aðgerðir eru þeim mun áhrifameiri og einfaldari, þar sem nú hefur verið sýnt fram á að möguleg erfðablöndun vegna laxeldis er staðbundnari en margir töldu áður. Áhættumat Hafrannóknastofnunarinnar sýnir þetta svart á hvítu og að viðfangsefnið snýr að ánum í Ísafjarðrdjúpi ( Laugardalsá, Langadals og Hvannadalsá) auk Breiðdalsár á Austfjörðum.

Hér á þessum vettvangi birtist athyglisverð frétt um að „eftirlitsmenn Fiskistofu kanni nú hvort eldislaxa sé að finna í ám nærri sjókvíaeldisstöðvum.“ Ennfremur segir í fréttinni: „Við rannsóknina er notaður dróni og svo verður ádráttarveiði hugsanlega notuð til að ná til fiska. Ef laxar veiðast sem hafa útlitseinkenni eldisfiska verða þeir teknir og rannsakaðir nánar. Laxar sem ekki bera nein merki eldisfiska verður sleppt aftur.“
Þessi frétt beinir athyglinni að því að unnt er að beita fjölþættum mótvægisaðgerðum til þess að fyrirbyggja að eldislax úr kvíum gangi upp í laxveiðiár til hrygningar. Þessar aðferðir eru þekktar og er beitt til að mynda með virkum hætti í Noregi. Á nýlegum fundi á vegum Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytisins, sagði fulltrúi Hafrannsóknastofnunar þar í landi frá því að árangurinn væri mjög góður af slíkum mótvægisaðgerðum.
Fiskeldisfyrirtækin hafa sett fram tillögur um mótvægisaðgerðir
Nú vill svo til að íslensku fiskeldisfyrirtækin hafa sett fram tillögur um slíkar mótvægisaðgerðir. Koma þær til viðbótar hugmyndum sem nú er verið að ræða um eldisaðferðir sem hafa það að markmiði að draga úr hættu á að fiskur sleppi úr laxeldiskvíum og munu augljóslega skila þeim árangri eins og sýna má fram á.
Hættan á erfðablöndun er staðbundin
Þessar aðgerðir eru þeim mun áhrifameiri og einfaldari, þar sem nú hefur verið sýnt fram á að möguleg erfðablöndun vegna laxeldis er staðbundnari en margir töldu áður. Áhættumat Hafrannóknastofnunarinnar sýnir þetta svart á hvítu og að viðfangsefnið snýr að ánum í Ísafjarðrdjúpi ( Laugardalsá, Langadals og Hvannadalsá) auk Breiðdalsár á Austfjörðum.

Margvíslegar mótvægisaðgerðir
Mótvægisaðgerðirnar geta verið af margvíslegum toga. Hér er stuðst við tillögur Háafells hf í Hnífsdal og má nefna eftirfarandi:
1. Notkun norska staðalsins NS 9415 við kvíar. Þetta er nú þegar staðan varðandi allt laxeldi hér á landi. Þessi búnaður hefur ma skilað því að sleppingar í Noregi drógust saman um 85% á sama tíma og framleiðslan jókst um helming.
2. Reynsla erlendis sýnir að 9% af strokulaxi endurheimtast við veiðar í sjó. Þessum aðferðum er beitt í Noregi, en umdeilt er um gildi þessarar aðgerðar.
3. Megináhersla verði lögð á að hindra að eldislax gangi í veiðiár og fjarlægja slíkan lax sem þangað gengur. Þetta má gera með margvíslegum hætti. Til er háþróaður myndavélabúnaður sem framleiddur er hér á landi og komið er fyrir við árósa eða fiskistiga og getur numið með öruggum hætti hvort um er að ræða eldisfisk eða villtan fisk. Eldisfiskinn sem þannig er numinn er auðvelt að fjarlægja úr ánum,
4. Þekkt er sú aðferð að setja gildrur í fiskistiga eða að þvergirða ána og hindra þannig og flokka villtan fisk frá eldislaxi og hleypa villta fiskinum upp í ána. Þessi aðferð er alþekkt í Noregi og hefur skilað miklum og góðum árangri.
5. Í Noregi er byrjað að fjarlægja eldislax úr ám ( veiðivötnum) í nágrenni við þann stað sem slsysasleppingar eiga sér stað. Þessari aðferð er mjög auðvelt að beita í ánum í Djúpinu og er samkynja því sem Fiskistofa er nú að framkvæma í ám hér á Vestfjörðum og fréttin í BB.is greinir frá.
6. Tryggja þarf að í lok veiðitímabils á villtum laxi sé hæfilegur fjöldi fiska í hrygningarstofnunum í laxveiðiánum í Ísfjarðardjúpi. Því stærri sem laxastofninn er því betur ver stofninn sig gegn mögulegri ágengni strokulaxa.

Sameiginlegir hagsmunir
Þetta eru nokkur dæmi um beinar mótvægisaðgerðir. Mikilvægt er að eiga gott samstarf við veiðiréttareigendur um slíkar aðgerðir og engin ástæða til að ætla nokkuð annað en að það muni takast. Allir aðilar hafa sömu hagmunina sem er að standa vörð um laxveiðarnar, jafnframt því að byggja upp öfluga atvinnustarfsemi á borð við laxeldi, sem mun í bráð og lengd gagnast öllum.

Einar K. Guðfinnsson,
formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva.

Síða 20 af 42« Fyrsta...10...1819202122...3040...Síðasta »