Útflutningsverðmæti fiskeldis  er 7 prósent útflutningstekna sjávarútvegsins

Útflutningsverðmæti fiskeldis er 7 prósent útflutningstekna sjávarútvegsins

Útflutningsverðmæti eldisfiskjar nam 14 milljörðum í fyrra og samsvarar 7 prósentum af útflutningstekjum í sjávarútvegi. Þorskurinn er verðmætasta tegundin með 83 milljarða útflutningsverðmæti. Þá loðna 18 milljarðar, en í þriðja sæti er fiskeldið með 14 milljarða. Útflutningur héðan á sjávarafurðum til Noregs nam í fyrra um 18,6 milljörðum króna. Lang mestur hluti þess er fiskimjöl og lýsi, sem fer í framleiðslu á fóðri til fiskeldis og sem er meðal annars selt hingað til lands.
Á þessu ári er áætlað að laxeldisframleiðslan  hér á landi geti numið um 15 milljörðum og á næsta ári nálægt 23 milljörðum króna. Er þá ótalin framleiðsla á öðrum tegundum, svo sem bleikju, regnbogasilungi, senegalflúru og hrognkelsaseiðum.

Þetta kemur fram í grein eftir Einar Kristinn Guðfinnsson, formann stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva í Morgunblaðinu í gær laugardag. Hér á eftir fer greinin í heild sinni:

Komið til að vera

„Laxeldi er komið til að vera og er mikilvægur atvinnuvegur fyrir Vest- og Austfirðinga“, sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra nýlega í blaðaviðtali. Þessi orð ráðherrans eru í samræmi við yfirlýsingar fjölmargra stjórnmálamanna af ólíku pólitísku litrófi að undanförnu og endurspeglar það sem fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, líkt og Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra hefur oftsinnis áréttað.
Það er að vonum. Þrátt fyrir að fiskeldið sé enn að stíga fyrstu skrefin í framleiðslu, hefur fjárfesting í greininni þegar numið tugum milljarða króna, skapað störf og útflutningstekjur sem um munar og í rauninni snúið við byggðaþróun á svæðum, sem hafa verið í krappri vörn síðustu áratugina.

Einar K. Guðfinnsson: Við þurfum að auka útflutninginn um 50 milljarða á ári, eða um einn milljarð á viku. Fiskeldið getur orðið mikilvægur hluti af þeirri vegferð.

Fiskeldið í þriðja sæti
Í nýrri ársskýrslu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi kemur fram að útflutningsverðmæti eldisfiskjar hér á landi nam á síðasta ári um 14 milljörðum króna. Samsavarar þessi upphæð rúmum 7 prósentum af útflutningstekjum í sjávarútvegi. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að fiskeldið er enn á fyrstu stigum framleiðslunnar og ljóst að á næstu árum mun það aukast með hliðsjón af þegar útgefnum rekstrar og starfsleyfum.
Ef við berum þetta saman við aðrar fisktegundir árið 2017, sjáum við að þorskurinn var eins og áður verðmætasta tegundin og nam útflutnginsverðmætið um 83 milljörðum króna. Þar á eftir kemur loðnan, 18 milljarðar króna. Útflutningsverðmæti fiskeldis kemur síðan þar á eftir með 14 milljarða króna, en þess ber að geta að á bak við það eru lax, bleikja, regnbogasilungur, Senegalflúra, hrognkelsaseiði og fleiri tegundir.
Til viðbótar við útflutningsverðmætið, er umtalsverð sala innanlands, keypt ráðgjöf og þjónusta sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi meta á um tvo til fjóra milljarða.
Getum enn aukið vinnsluvirðið
Því bæta við að útflutningur héðan á sjávarafurðum til Noregs nam í fyrra um 18,6 milljörðum króna. Lang mestur hluti þess er fiskimjöl og lýsi, sem fer í framleiðslu á fóðri til fiskeldis og sem er meðal annars selt hingað til lands. Þarna getum við enn aukið vinnsluvirðið, því með vaxandi fiskeldi mun innlend fóðurframleiðsla aukast og íslensk verðmætasköpun að sama skapi. Ætla má að innan tíðar fari öll fóðurframleiðsla til íslensks fiskeldis fram hér á landi og gæti jafnframt orðið uppspretta útflutnings.
Þurfum að stórauka útflutningsverðmætið
Samtök atvinnulífsins hafa bent á að eigi íslenska efnahagslífið að vaxa áfram á sama hraða og að meðaltali síðustu áratugi, og útflutningsgreinar að halda sínu vægi í verðmætasköpuninni, þurfi útflutningsverðmæti að vaxa um 1.000 milljarða á næstu 20 árum. Það gerir um 50 milljarða á ári eða 1 milljarð á viku. Af þessu leiðir að við þurfum mjög á því að halda að auka útflutningsverðmæti okkar og fjölga stoðum útflutningsins til þess að bæta lífskjörin.
Fiskeldið getur orðið mikilvægur þáttur í þeirri vegferð og hefur allar forsendur til þess. Á þessu ári er áætlað að laxeldisframleiðslan ein og saman hér á landi geti numið um 15 milljörðum og á næsta ári nálægt 23 milljörðum króna. Er þá ótalin framleiðsla á öðrum tegundum, svo sem bleikju, regnbogasilungi, senegalflúru og hrognkelsaseiðum.
Þetta skiptir ekki síst miklu máli núna í ljósi þess að útflutningsverðmæti sjávarútvegs minnkaði á síðasta ári og horfur virðast á að vöxtur ferðaþjónustunnar fari minnkandi.
„Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein“
Það eru því orð að sönnu, að fiskeldi sé komið til að vera líkt og áréttað er með þessum orðum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar: „Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem felur í sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar, en þarf að byggja upp með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna þannig að líffræðilegri fjölbreytni verði ekki ógnað.“
Einar K. Guðfinnsson, formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva

Laxaverð í sögulegum hæðum – nálgast nú þúsund krónur á kíló

Laxaverð í sögulegum hæðum – nálgast nú þúsund krónur á kíló

Mikil eftirspurn er nú eftir laxi og laxaafurðum á alþjóðlegum mörkuðum. Verð á laxi er í hæstu hæðum og framboð heldur ekki í við eftirspurn. Á mörkuðum hafa sést sölutölur fyrir lax á allt að 8,29 evrum, sem samsvarar um þúsund krónum á kíló. Verð á laxi hefur verið hátt undanfarin ár, lækkaði þó aðeins undir lok síðasta árs, en það hefur heldur betur snúist við.
Þetta kemur fram í fagtímaritum um fiskeldi,á borð við salmonbusiness.com og ilaks.no.

Þessi mikla hækkun kemur vitaskuld fram í stórauknu verðmæti á útflutningi laxi og laxaafurðum frá Noregi, stærstu fiskeldisþjóð í heimi. Í aprílmánuði einum jókst útflutningur á laxi frá Noregi um fjögur prósent og nam um 74 þúsund tonnum. Verðmætið var hins vegar sem svarar um 66 milljörðum og hafði hækkað um níu prósent.

Til samanburðar var útflutningsverðmæti á þorski frá Íslandi allt árið í fyrra um 83 milljarðar.

Ef litið er til fyrsta ársfjórðungs þessa árs ( janúar til mars) fluttu Norðmenn út um 320 þúsund tonn af laxi, sem er aukning um 16 þúsund tonn frá sama tíma í fyrra. Verðmæti þessa var 2,2 milljarðar evra, eða um 264 milljarðar króna, sem er umtalsvert meira en sem svarar öllum útflutningi á íslenskum sjávarafurðum í heild í fyrra. Að því er fram kemur í ársskýrslu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi nam útflutningsverðmæti 197,1 milljarði króna og hafði lækkað um 15 prósent frá árinu á undan, meðal annars vegna lægra verðs, sjómannaverkfalls, sterkara gengis og fleiri þátta

Því óskildari sem laxinn er villta laxinum, því minni er hætta á erfðablöndun

Því óskildari sem laxinn er villta laxinum, því minni er hætta á erfðablöndun

 

Því óskildari sem aðkomulaxinn er villta laxinum því ósennilegra er að hann skilji eftir sig spor. Þetta er niðurstaða Kevin Glover prófessors í Bergen. Annar norskur fræðimaður, Kjetil Hindar hjá norsku Náttúrufræðistofnuninni segir að það þurfi mikla, stöðuga og viðvarandi innblöndun af eldislaxi í áratugi til að hætta á erfðablöndun sé raunveruleg.

Þetta kemur fram í grein eftir Gunnar Stein Gunnarsson líffræðing og framleiðslustjóra hjá Löxum ehf í Fréttablaðinu í dag.

Í grein sinni vitnar Gunnar Steinn til rannsókna Kevin Glover og segir: „Niðurstöður Golover benda til þess að þegar hlutfall sleppifiska í á verður um 5 til 10 prósent í 50 ár verði áhrif erfðablöndunar mjög lítil. Það er ekki fyrr en hlutfallið fer upp í 30 til 50 prósent sem breytingar verða augljósar á þessu sama tímabili. Niðurstöðurnar benda til þess að hætta á erfðablöndun eldislaxa við villta laxastofna sé stórlega ofmetin af leikmönnum.“

Það er og niðurstaða Glovers að samsetning ákveðinna þátta, svo sem lítill árangur eldislax við hrygningu og náttúrulegt val, dragi úr hraða og stærðargráðu breytinga á lýðfræðilegum einkennum villta laxastofnsins sem hefur upplifað innstreymi villta laxastofnsins. Þessi niðurstaða prófessors Glovers er í samræmi við niðurstöður annarra aðila í fræðiheiminum.

Hér á eftir fer grein Gunnars Steins í heild sinni:

Stofnanda áhugamannafélagsins IWF svarað

Gunnar Steinn Gunnarsson: Það er og niðurstaða Glovers að samsetning ákveðinna þátta, svo sem lítill árangur eldislax við hrygningu og náttúrulegt val, dragi úr hraða og stærðargráðu breytinga á lýðfræðilegum einkennum villta laxastofnsins sem hefur upplifað innstreymi villta laxastofnsins. Þessi niðurstaða prófessors Glovers er í samræmi við niðurstöður annarra aðila í fræðiheiminum.

Þann 28. mars 2018 birtist í Fréttablaðinu grein eftir Ingólf Ásgeirsson. Þar gefur hann sig út fyrir að tala máli náttúruverndarsinna í stað þess að koma fram í nafni hagsmunaaðila sem hann sannarlega er. Fjallað hefur verið um viðskiptahugmyndir hans í fjölmiðlum, m.a. er hann leigði Þverá/Kjarrá fyrir 111,7 milljónir króna árlega í fimm ár.

Í grein Ingólfs kom fram að hann hafði haft samband við norska fræðimanninn Keven Glover í tilefni af nýbirtum rannsóknarniðurstöðum hans og umfjöllun um þær hérlendis. Niðurstöður Glovers benda til þess að þegar hlutfall sleppifiska í á verður um 5-10% í 50 ár verði áhrif erfðablöndunar mjög lítil. Það er ekki fyrr en hlutfallið fer upp í 30-50% sem breytingar verða augljósar á þessu sama tímabili. Niðurstöðurnar benda til þess að hætta á erfðablöndun eldislaxa við villta laxastofna sé stórlega ofmetin af leikmönnum.

Rannsókn Glovers tók til Norður-Atlantshafslax en það er sá lax sem er að finna bæði á Íslandi og í Noregi. Ingólfur gefur sér að niðurstöður rannsóknarinnar hafi ekki þýðingu hér á landi og að ekki sé hægt að heimfæra þær yfir á Ísland þar sem stofnar hér séu ólíkir þeim norsku. Hins vegar má benda Ingólfi á að sömu náttúrulögmál gilda á Íslandi og í Noregi. Reyndar mætti Ingólfur lesa fræðigreinar af meiri athygli áður en hann ríður fram á ritvöllinn, en í grein Glovers kemur einmitt fram að því óskildari sem aðkomulaxinn er villta laxinum því ósennilegra er að hann skilji eftir sig spor.

Í grein Glovers kemur fram að samsetning ákveðinna þátta, eins og lítill árangur eldislaxins við hrygningu, náttúrulegt val sem hyglir aðlöguðum fenótýpum/genótýpum frá hinum villtu stofnum sem og fenótýpískur sveigjanleiki, dregur úr hraða og stærðargráðu breytinga í fenótýpum/genótýpum og lýðfræðilegum einkennum villta laxastofnsins sem hefur upplifað innstreymi frá eldislaxi. Þetta er í samræmi við niðurstöður annarra aðila í fræðaheiminum svo sem Hindar, Norsku hafrannsóknastofnunarinnar og fleiri. Það þarf mikla, stöðuga og viðvarandi innblöndun af eldislaxi í áratugi til að hætta á erfðablöndun sé raunveruleg (Hindar; 2006, 2017). Um þetta eru fræðimenn nokkuð sammála í Noregi og víðar.

Í grein sinni kemur Ingólfur Ásgeirsson fram sem einn af stofnendum Icelandic Wildlife Fund. Af þessu enska heiti félagsins myndu menn ætla að um væri að ræða öflug náttúruverndarsamtök sem hefðu rödd á alþjóðavettvangi en þegar betur er að gáð reynist Icelandic Wildlife Fund vera óþekkt sjálfseignarstofnun. Hér á þessari afskekktu og fámennu eyju hafa fyrirbæri í gegnum tíðina fengið stærri nöfn en innistæða er fyrir eða leitast hefur verið við að upphefja heitið með útlenskum blæ. Slíkt er að mörgu leyti falleg og saklaus sveitamennska.

Það sem vekur hins vegar furðu er að sjá mann stíga fram í tómstundum sínum sem stofnanda samtaka til verndar náttúrunni og hugsjónamann á meðan sá sami hefur að aðalstarfi að fljúga breiðþotum um heiminn á krítískum tímum „global warming“ eða hnatthlýnunar. Það er allt að því leikhúsleg upplifun að sjá menn gefa sig út fyrir að vera baráttumenn fyrir villtri náttúru á sama tíma og þeir verja dögum sínum í að skilja eftir sig stór kolefnisspor í einni mest mengandi atvinnustarfsemi sem stunduð er. Sé stofnanda framangreindra náttúruverndarsamtaka alvara ætti hann að hafa í huga þá gullnu reglu að byrja á að breyta sjálfum sér ætli maður að breyta heiminum. Að sýna gott fordæmi væri eðlilegt fyrsta skref.

Höfundur er líffræðingur

Íslendingar taka virkan þátt í þróun á geldfiski

Íslendingar taka virkan þátt í þróun á geldfiski

Mikil viðurkenning felst í því fyrir íslenska fyrirtækið Stofnfisk, að eitt stærsta fiskeldisfyrirtæki í heimi, Grieg seafood, ætlar að kaupa verulegt magn af geldhrognum, alls 22 milljónir hrogna, til þess að þróa eldi á geldum laxi í laxeldisstöð sinni á Nýfundnalandi. Þó framleiðsla á ófrjóum laxi sé enn á þróunarstigi, taka Íslendingar, fræðasamfélagið jafnt og fiskeldisfyrirtækin, virkan þátt í þróuninni og Stofnfiskur fékk nú nýverið styrk til þessa verkefnis úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis, sem íslensku fiskeldisfyrirtækin fjármagna.

Jónas Jónasson: „Þetta nær yfir fimm ár þannig að þetta er eitthvað um fimm til tíu prósent af ársframleiðlsunni hjá okkur. En það sem fylgir þessu er ákveðin viðurkenning fyrir okkur hjá Stofnfiski vegna þess að okkar laxastofn er svo heilbrigður. Hann er allur alinn á landi og laus við sjúkdóma sem eru þekktir í eldi annars staðar. Þess vegna vilja þeir gjarnan kaupa hjá okkur.“

Ánægjulegt er til þess að vita að íslenskir aðilar, jafnt fræðasamfélagið sem og fiskeldisfyrirtækin taka nú með virkum hætti þátt í því að þróa framleiðslu á geldifiski til að nota við laxeldi. Erlendis er víða unnið að þessum málum og ljóst að Íslendingar eru engir eftirbátar og leggja sitt af mörkunum við þetta merkilega þróunarstarf. Í þessu felast mikil tækifæri, þó ennþá sé þróunin ekki komin svo langt að hægt sé að ræða um framleiðslu á geldlaxi í miklum mæli.
Stuðningur frá Umhverfissjóði sjókvíaeldis
Fyrirtækið Stofnfiskur tekur þátt í þessu starfi með virkum hætti og athyglisvert er að eftirspurn er erlendis frá eftir geldhrognum sem fyrirtækið framleiðir og er meðal þeirra vara sem þeir eru með til staðar á sínum vegum. Stofnfiskur ásamt Háskóla Íslands fékk styrk til þessarar þróunarvinnu úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis, en þennan sjóð fjármagna íslensku fiskeldisfyrirtækin að öllu leyti.
Gæti falið í sér möguleika á auknu eldi
Í margumræddu áhættumati Hafrannsóknastofnunar felst skilgreining á því hversu mikið magn af frjóum laxi megi ala á tilteknum svæðum. Fram kemur hins vegar í áhættumatinu að unnt sé að auka þessa framleiðslu enn frekar með notkun á ófrjóum laxi. Í nýju frumvarpi til fiskeldislaga sem nú er til meðferðar á Alþingi, er innbyggður hvati til fiskeldisfyrirtækjanna til notkunar á ófrjóum laxi. Það er því ljóst að ef vel tekst til, er unnt að auka framleiðslu á laxi, umfram það sem áður hefur verið um rætt.
Hefur vakið athygli á alþjóðavísu
Framleiðsla Stofnfisks á geldhrognum hefur vakið athygli á alþjóðavísu og hefur verið um hana fjallað meðal annars í fjölmiðlum sem sérhæfa sig í umfjöllun um fiskeldi, svo eftir er tekið.
22 milljónir geldhrogna
Í nýjasta tölublaði Fiskifrétta er að finna frásögn af því að norska fiskeldið Grieg seafood hafi gert stóran samning við Stofnfisk um kaup á 22 milljónum geldhrogna, til afhendingar á árunum 2019 til 2024, sem notuð verða í nýrri fiskeldisstöð fyrirtækisins í Nýfundnalandi. Í þessu felst mikil viðurkenning á starfi Stofnfisks, sem hefur árlega selt nokkrar milljónir hrogna til Noregs og áunnið sér traust og virðingu þar og annars staðar fyrir framtak sitt.
Fá aukin fiskeldisleyfi út á að nota geldfisk
„Við höfum verið að þróa þessa vörulínu til Noregs, segir Jónas Jónasson framkvæmdastjóri Stofnfisks. „Það eru ákveðin fyrirtæki sem hafa fengið auka fiskeldisleyfi út á það að nota geldfisk“, segir hann ennfremur.
„Það er sett skilyrði að nota geldfiska á þessu svæði á Nýfundnalangi því fyrir er eldi þar sem notaður er frjór lax til eldisins. Þeir leita þá til okkar. Þeir vita að við getum framleitt þetta og vilja láta okkur sjá um þetta í sinni uppbyggingu“, segir Jónas í viðtlai við Fiskifréttir.
Fimm til tíu prósent af ársframleiðslu Stofnfisks
„Þetta nær yfir fimm ár þannig að þetta er eitthvað um fimm til tíu prósent af ársframleiðlsunni hjá okkur. En það sem fylgir þessu er ákveðin viðurkenning fyrir okkur hjá Stofnfiski vegna þess að okkar laxastofn er svo heilbrigður. Hann er allur alinn á landi og laus við sjúkdóma sem eru þekktir í eldi annars staðar. Þess vegna vilja þeir gjarnan kaupa hjá okkur“, segir Jónas Jónasson framkvæmdastjóri Stofnfisks í samtali við Fiskifréttir.

„Útilokað að byggja laxeldi eingöngu upp á landi“

„Útilokað að byggja laxeldi eingöngu upp á landi“

  • Það er útilokað að byggja laxeldi eingöngu uppi á landi.
  • Aðgengi að vatni, hita og plássi eru takmarkaðndi fyrir uppbyggingu.
  • Ísland stendur vel að vígi í samanburði við önnur lönd.
  • Það eru bæði kostir og gallar við landeldi.
  • Kostnaðarlega er landeldi ekki samkeppnishæft við kvíaeldi.
  • Laxeldi hvort heldur sem er á sjó eða á landi er umhverfisvæn framleiðsla.
  • Vöxtur í landeldi á heimsvísu er háður árangri í endurnýtingu vatns.

Framleiðsla á laxi í landeldi er af miklum gæðum. Ekki er þó sjáanlegur mikill munur á fiski sem tekinn er beint upp úr sjókví og fiski sem tekinn er upp úr keri hjá honum á landi.

Þetta voru meginniðurstöður Arnars Freys Jónssonar rekstrarstjóra Íslandsbleikju í Öxarfirði, í erindi sem hann flutti á Strandbúnaðarráðstefnunni í mars sl.
Fiskifréttir tóku þessi mál til umfjöllunar í nýjasta tölublaðinu og ræddu ma við Arnar. Þar áréttar hann að landeldi geti aldrei komið í staðinn fyrir sjóeldið.
„En þá fer allt forskot okkar Íslendinga út í hafsauga…“
„Stórskala landeldi kallar á gríðarlegt magn af vatni og það er bara ekkert í boði alls staðar. Þetta mun alltaf verða takmarkandi þáttur. Eins og staðan er í dag eru menn ekkert að ná árangri nema með mikilli vatnsnotkun. Bendir Arnar á að til þess að komast af með minni vatnsnotkun þyrfti að vera hægt að endurnýta vatnið en margra ára vinna við að þróa aðferðir við endurnýtingu vatnsins hefur ekki skilað þeim árangri sem þyrfti.
„Sjálfsagt verður auðvitað einhver framtíð í því þegar menn ná tökum á þessu. En þá fer allt forskot okkar Íslendinga út í hafsauga því þá verða menn með framleiðsluna nær mörkuðunum, þar sem ekki þvar neinar vatnsauðlindir.“
Viðkvæm fyrir verði á mörkuðum
Um rekstrarþáttinn segir Arnar Freyr:
„Ég myndi segja að það sé ekki eins mikill afgangur af þessu í rekstrinum eins og þyrfti að vera miðað við áhættuna sem er í svona rekstri. Það geta alltaf orðið einhver óhöpp og svo erum við líka mjög viðkvæm fyrir verði á mörkuðum. Það þarf til dæmis ekki mikið að breytast í gengismálum til að við séum komnir öfugu megin við núllið. Þetta verður líka alltaf mannaflsfrekari rekstur en sjóeldið.
Enginn stór munur á gæðunum
Varðandi gæðin segir Arnar í viðtalinu við Fiskifréttir að landeldið hafi vinninginn. Hann segist hins vegar ekki telja að neinn stór munur sé sjáanlegur á fiski sem tekinn er beint upp úr sjókví og fiski sem tekinn er upp úr keri hjá honum á landi.

Síða 10 af 42« Fyrsta...89101112...203040...Síðasta »