Fiskeldisfyrirtæki ganga til liðs við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi

Fiskeldisfyrirtæki ganga til liðs við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi

Á auka aðalfundi Landssambands fiskeldisstöðva (LF) 14. desember sl. var tekin sameiginleg ákvörðun aðildarfyrirtækjanna um að óska eftir aðild að Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Jafnframt var ákveðið að leggja niður daglega starfsemi LF og mun henni framvegis verða sinnt af SFS. Fiskeldi hér á landi hefur aukist á undanförnum árum og verkefni Landssambandsins hafa þar með orðið fleiri og fjölþættari. Það er mat stjórnar Landssambandsins að þeim verkefnum verði betur sinnt innan vébanda Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Röksrétt skref

Einar K. Guðfinnsson er formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva: „ Það hefur verið mikil uppbygging í fiskeldi á undanförnum árum og verkefnin sem þarf að leysa úr eru orðin umfangsmeiri og kannski að sumu leyti flóknari en áður. Ég tel þetta því rökrétt skref í þróun samtakanna og fiskeldis á Íslandi, að verða hluti af samtökum sem byggjast á gömlum grunni. Laxeldi hefur alla burði til þess að verða undirstöðuatvinnugrein á Íslandi á sama hátt og sjávarútvegurinn hefur verið um langt skeið og verða þar með enn ein stoðin undir efnahagslegri hagsæld Íslendinga. Að því munum við vinna.“
Hlakka til samstarfsins

Jens Garðar Helgason formaður stjórnar SFS segist fagna komu fiskeldis í samtökin. Nokkur fyrirtæki í fiskeldi hafi um alllangt skeið verið félagsmenn í SFS og styrkur sé að því að fjölga þeim. „Ég hlakka til samstarfsins og hlýt að fagna komu þeirra. Það mun bæði styrkja SFS og ekki síður það góða starf sem unnið hefur verið á vegum Landssambandsins á undanförnum árum. Næstu vikur og mánuðir fara í að samþætta starfsemina undir hatti SFS og ég vonast til þess að þeirri vinnu verði lokið fyrir sumarið.“

Ákveðið hefur verið að Einar K. Guðfinnsson verði hluti af teymi SFS og sinni þar verkefnum er snúa að fiskeldismálum.

Öll laxeldisframleiðsla á Vestfjörðum er nú umhverfisvottuð

Öll laxeldisframleiðsla á Vestfjörðum er nú umhverfisvottuð

Laxeldisfyrirtækin Arnarlax og Arctic Sea Farm hafa fengið ASC umhverfisvottun á framleiðslu sína. ASC (Aquaculture Stewardship Council ) er ein strangasta umhverfisvottun þegar kemur að fiskeldi og þekkt um allan heim. Allur lax sem framleiddur verður á Vestfjörðum árið 2019 verður vottaður en bæði Arnarlax og Arctic Sea Farm eru staðsett á Vestfjörðum.

„Við erum mjög ánægð með að vera komin með ASC umhverfisvottun. Þetta undirstrikar markmið okkar um að stunda fiskeldi á sjálfbæran hátt í sátt við náttúru og samfélag“ Segir Kristian Mattiasson framkvæmdarstjóri Arnarlax.

ASC vottunarstaðallinn hefur verið þróaður meðal annars af World Wildlife Fund (WWF) og fiskeldisfyrirrækjum en til að fá vottun þurfa fyrirtækin meðal annars að lágmarka umhverfisáhrif, starfa í sátt við samfélag og umhverfi. ASC vottun er hliðstæð MSC staðlinum sem er þekktasti umhverfisstaðallinn fyrir sjávarafurðir nema þessi staðall er aðlagaður eldisafurðum. ASC samtökin sem að baki staðlinum starfa eru ekki rekin í hagnaðarskini (non-profit) og óháð samtök.

„ASC vottunin hefur mikla þýðingu fyrir okkur þar sem okkar viðskiptavinir horfa töluvert til umhverfisáhrifa og gera kröfur í þeim efnum. Við teljum að þessi áhersla á umhverfismál skili okkur ákveðnu samkeppnisforskoti til lengri tíma“ segir Stein Ove Tveiten, framkvæmdastjóri Arctic Sea Farm.

Fyrirtæki sem standast ASC vottun skuldbinda sig að lágmarka áhrif á umhverfið á ýmsa vegu. Taka þarf tillit til villtra laxfiskastofna, fugla, sjávarspendýra og annara lífvera sem búa í námunda við eldissvæðin svo eitthvað sé nefnt.

Það var Svissneska vottunarfyrirtækið Bio Inspecta sem sá um ASC úttekt Arnarlax. „Það er ánægjulegt að búið sé að taka út eldissvæði Arnarlax við Haganes og Steinanes og að fiskur af þessum eldissvæðum sé vottaður. Núna getur Arnarlax boðið viðskiptavinum upp á lax sem er alin á sjálfbæran og skynsamlegan hátt“ segir Roger Benz, gæðastjóri Bio Inspecta

Kolefnisspor laxeldis lægra en í flestri annarri framleiðslu á dýraafurðum til manneldis

Kolefnisspor laxeldis lægra en í flestri annarri framleiðslu á dýraafurðum til manneldis

Kolefnisspor sjókvíeldis er svipað og við veiðar á villtum fiski og lægra en í flestri annarri framleiðslu á dýraafurðum til manneldis.

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá laxeldi í sjó á Íslandi var um 31.000 tonn CO2-ígilda árið 2017, eða sem nemur 3,21 kg CO2-ígilda á hvert kíló af tilbúinni afurð. Þessi niðurstaða er í góðu samræmi við erlenda útreikninga, sem flestir hafa gefið niðurstöðu á bilinu 2,88-4,13 kg/kg (meðaltal 3,76 kg/kg).

Umfjöllun í heild

Landssamband fiskeldisstöðva óskaði eftir því við Umhverfisráðgjöf Íslands ehf. (Environice) að reikna út kolefnisspor sjókvíeldis á Íslandi og benda á raunhæfar leiðir til kolefnisjöfnunar. Jafnframt var þróað reiknilíkan á Excel-formi sem gerir einstökum laxeldisfyrirtækjum kleift að reikna kolefnisspor framleiðslu sinnar, þ.e.a.s. magn gróðurhúsalofttegunda sem losnar við framleiðslu á hverju kílói af laxi til manneldis. Inn í þessa reikninga var tekin framleiðsla og flutningur fóðurs og annarra aðfanga, eldið sjálft, orkunotkun, notkun kælimiðla og meðhöndlun úrgangs, svo og pökkun og flutningur afurða frá laxeldisstöð til dreifingarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Reiknilíkanið verður aðgengilegt á heimasíðu Landssambandi fiskeldisstöðva www.lf.is þar sem nálgast má meðfylgjandi skýrslu á rafrænu formi og aðrar upplýsingar umhverfisáhrif fiskeldis.

Meginniðurstaða verkefnisins er að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá laxeldi í sjó á Íslandi hafi verið um 31.000 tonn CO2-ígilda árið 2017, eða sem nemur 3,21 kg CO2-ígilda á hvert kíló af tilbúinni afurð. Þessi niðurstaða er í góðu samræmi við erlenda útreikninga, sem flestir hafa gefið niðurstöðu á bilinu 2,88-4,13 kg/kg (meðaltal 3,76 kg/kg).1

Kolefnisspor sjókvíeldis er samkvæmt þessu svipað og við veiðar á villtum fiski og lægra en í flestri annarri framleiðslu á dýraafurðum til manneldis.

Langstærsti hlutinn af kolefnisspori laxeldis á Íslandi (um 93%) liggur í framleiðslu og flutningum á fóðri. Um 3% stafa af framleiðslu og flutningi umbúða og um 2% af flutningi afurða til dreifingarstöðvar. Aðrir þætti hafa minna vægi. Af þessu er ljóst að áhrif greinarinnar á loftslagið liggja fyrst og fremst í starfsemi sem fram fer utan laxeldisstöðvanna sjálfra.

Hægt væri að kolefnisjafna alla losun gróðurhúsalofttegunda frá sjókvíeldi á Íslandi með landbótaaðgerðum, þ.e.a.s. landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. Sem dæmi má nefna að til að kolefnisjafna alla losun greinarinnar eins og hún var árið 2017 þyrfti að endurheimta um 1.590 ha af votlendi. Sú ráðstöfun væri í raun varanleg, þar sem hún myndi draga úr losun samsvarandi magns gróðurhúsalofttegunda frá votlendi árlega í áratugi eða aldir. Ekkert er því til fyrirstöðu að byggðatengja landbótaaðgerðir af þessu tagi, þannig að fjármagn sem lagt er til verkefnanna nýtist í heimabyggð.

Skýrslan er unnin af Umhverfisráðgjöf Íslands ehf. (Environice) fyrir Landssamband fiskeldisstöðva. Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur og Birna Sigrún Hallsdóttir umhverfisverkfræðingur höfðu umsjón með gerð skýrslunnar hjá Umhverfisráðgjöf Íslands ehf.

 

ESB hefur lagt gríðarlega fjármuni í uppbyggingu fiskeldis

ESB hefur lagt gríðarlega fjármuni í uppbyggingu fiskeldis

 

Karmenu Vella: European Maritime and Fisheries Fund, sem er sjóður á vegum Evrópusambandsins, hefur veitt styrki sem nema um 280 milljörðum króna frá árinu 2013. Þessir fjármunir hafa dreifst um alla Evrópu og farið til hvers konar fiskeldis. Á sama tíma hefur verið varið um 35 milljörðum króna á vegum rannsóknaráætlunar Evrópusambandsins sem nefnist HORIZON 2020, til þróunar fiskeldis í ESB ríkjunum.

Evrópusambandið vill efla fiskeldi og hefur lagt gríðarlega fjármuni til þess á undanförnum árum. European Maritime and Fisheries Fund, sem er sjóður á vegum Evrópusambandsins, hefur veitt styrki sem nema um 280 milljörðum króna frá árinu 2013. Þessir fjármunir hafa dreifst um alla Evrópu og farið til hvers konar fiskeldis. Á sama tíma hefur verið varið um 35 milljörðum króna á vegum rannsóknaráætlunar Evrópusambandsins sem nefnist HORIZON 2020, til þróunar fiskeldis í ESB ríkjunum.
Þetta kom fram í ræðu Karmenu Vella, sjávarútvegsstjóra, Evrópusambandsins á 50 ára afmælisfundi evrópsku fiskeldissamtakanna í Brussel nú á dögunum.
Sjávarútvegsstjórinn var afdráttarlaus þegar kom að fiskeldi og taldi að greinin gæti gegnt lykilhlutverki í atvinnusköpun og efnahagsframförum í Evrópu.
„Við viljum að sjálfbært fiskeldi blómstri. Fiskeldi skapar hagvöxt, atvinnu og efnhagslegan stöðugleika, sérstaklega í dreifbýli og í sjávarbyggðunum“, sagði Vella. Hann benti á að fiskeldi gæti aukið matvælaöryggi og færi neytendum holla og próteinríka fæðu.
„Þess vegna styður ESB sjálfbært fiskeldi“, bætti hann við.
„Framtíðin er björt“, sagði sjávarútvegsstjórinn. Hann kvaðst hafa spurt helstu sérfræðinga Evrópusambandsins um hvernig við gætum framleitt meiri matvæli úr hafinu. Svör þeirra voru afdráttarlaus. Meira fiskeldi, sögðu þeir.
Ræða Karmenu Vella sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins er nú aðgengileg á Youtube. Sjá hér:https://www.youtube.com/watch?v=enwOG3KC5lA

„Þetta á bara eftir að stækka“

„Þetta á bara eftir að stækka“

„Þetta á bara eftir að stækka“, segir Stefán Ingvarsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins Egersund Ísland, sem er að koma upp fullkominni þvottastöð fyrir fiskeldisnætur á Eskifirði. Stefán segir að ótrúlega margir vinni þegar við fiskeldi á Eskifirði og fyrirtækið kaupi margvíslega þjónustu á staðnum.
Karl Óttar Pétursson bæjarstjóri Fjarðarbyggðar bendir á að aðaláhrif fiskeldisfyrirtækja séu í gegn um slátrun á laxinum sem nú fer fram hjá Búlandstindi á Djúpavogi í tilviki Laxa fiskeldis sem er með sitt eldi í Reyðarfirði. Þegar forsendur verði fyrir hendi gæti þetta breyst og fiskeldið orðið mikilvægur liður í atvinnulífinu í sveitarfélaginu.

Karl Óttar Pétursson bæjarstjóri Fjarðarbyggðar bendir á að aðaláhrif fiskeldisfyrirtækja séu í gegn um slátrun á laxinum sem nú fer fram hjá Búlandstindi á Djúpavogi í tilviki Laxa fiskeldis sem er með sitt eldi í Reyðarfirði. Þegar forsendur verði fyrir hendi gæti þetta breyst og fiskeldið orðið mikilvægur liður í atvinnulífinu í sveitarfélaginu.

Stefán Ingvarsson: „Við getum útvegað allt fyrir fiskeldið, annað en laxinn,“

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu 3. desember. Hér á eftir fer frétt Morgunblaðsins frá 3. desember sl. í heild sinni.
Egersund Ísland er að koma upp þvottastöð fyrir fiskeldisnætur á lóð netagerðar sinnar á Eskifirði. Stutt er í að starfsemin hefjist. Auk þess að þvo næturnar þarf að hafa eftirlit, annast prófun og viðgerðir á nótunum á netaverkstæðinu.
Egersund Ísland er hluti af samstæðu Egersund hinnar norsku. Hún rekur átta nótaþvottastöðvar í nágrenni við flest helstu fiskeldissvæði Noregs. Egersund Ísland sækir í smiðju móðurfélagsins og úr verður fullkomnasta þvottastöð heims.
Þarf gæðakerfi
Þvottavélin er komin á staðinn. Það er ekki nóg því koma þarf upp miklu dælu- og hreinsikerfi. Þvottastöðin fær hreinsaðan sjó frá Eskju, samskonar sjó og notaður er við fiskvinnsluna. Að auki er þvottavatnið sótthreinsað ásamt vatninu sem lekur af nótunum og öllu regnvatni sem bætist á þvottaplanið og það endurnýtt að hluta eða skilað hreinu út í sjóinn aftur. Hreinsivirkið er sett upp í gámaeiningar hjá framleiðandanum í Þýskalandi og verður nánast hægt að stinga í samband þegar gámarnir koma á staðinn.
Barði Westin, þjónustustjóri fiskeldis hjá Egersund Ísland, segir að jafnhliða þurfi að byggja upp vottunarkerfi fyrir alla vinnu við næturnar til að tryggja að þær séu í góðu ásigkomulagi þegar lax er settur í kvíarnar á ný. Það kerfi fái þeir frá Noregi.
Mikil þörf fyrir slíka þjónustu hér á landi
Barði segir að mikil þörf sé á slíkri þjónustu hér á landi og vonast hann til að geta þjónað flestum fiskeldisstöðvum landsins. Allar stöðvarnar hvíla eldissvæðin að lokinni slátrun og þá þarf að þvo næturnar. Barði vonast til þess að hægt verði að gangsetja þvottastöðina í byrjun nýs árs og þjóna Löxum fiskeldi sem eru þessar vikurnar að slátra fyrstu kynslóð laxa úr Reyðarfirði og þurfa að láta þvo og yfirfara næturnar í byrjun næsta árs.
„Getum útvegað allt fyrir fiskeldið annað en laxinn“
Stefán Ingvarsson, framkvæmdastjóri Egersund Ísland, segir að ekki sé grundvöllur til að framleiða nótapokana hér. Þeir séu framleiddir í Noregi og Litháen. Þeir hafi þó þjónað fiskeldinu talsvert, til dæmis með því að selja fyrirtækjum fuglanet sem sett eru yfir kvíarnar.
Hann vekur hins vegar athygli á því að Egersund hafi sameinast Akva-samstæðunni sem er virtur tækjaframleiðandi fyrir fiskeldið. Hluti af fóðurprömmunum sem hér eru í notkun og myndavélabúnaður er til dæmis frá Akva. Egersund geti veitt fiskeldisfyrirtækjum heildarþjónustu. „Við getum útvegað allt fyrir fiskeldið, annað en laxinn,“ segir Stefán.
Hann segir fyrirtækið vera heppið að eiga þetta bakland í Noregi. „Við nýtum okkur reynslu Norðmanna sem eru lengst komnir í fiskeldi í heiminum,“ segir hann.

Síða 1 af 4212345...102030...Síðasta »