Höfum alla burði til að gera Ísland að mjög öflugri fiskeldisþjóð

„Ég hef hvatt fiskeldisfyrirtækin til að kunna sér hóf. Það þarf að byggja greinina upp á ábyrgan hátt og ekki líta á vöxtinn sem kapphlaup. Ef skynsemin ræður ferðinni, reglurnar eru skýrar og ekki vaðið fram þá höfum við alla burði til að gera Ísland að mjög öflugri fiskeldisþjóð. Við þurfum ekki að finna upp hjólið og getum lært mikið af Norðmönnum og þeim stífu reglum og ströngu kröfum um að búnað í fiskeldi sem þar gilda“

Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra í samtali við 200 mílur, sjávarútvegsblað Morgunblaðsins í dag.

„Þroskaferli íslensks fiskeldi er ekki óvenjulegt“

„Ég ræddi nýlega við mann úr norska fiskeldisgeiranum og benti hann mér á að þar í landi hefði greinin farið af stað snemma á 8. áratugnum og þurfti nokkur gjaldþrot áður en þeim tókst að ná góðum tökum á fiskeldinu. Ég held því að þroskaferli íslensks fiskeldis sé ekki óvenjulegt“, segir Þorgerður Katrín ennfremur í viðtali við blaðið.

Þurfum skýra sýn á framtíð fiskeldis

„Eins og staðan er í dag þurfum við að fá skýrari sýn á framtíð fiskeldis á Íslandi. Gera þarf mjög ítarlegar kröfur umhverfisvernd og ábyrgan vöxt. Fiskeldið má alls ekki skaða lífríkið í fjörðunum og alls ekki skemma villta stofna auk þess að eðlilegt er að gera kröfu um auðlindagjald í einhverju formi“.

Tekjurnar til sveitarfélaganna

Í samtli við 200 mílur segir sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra ennfremur æskileggt að gjaldið renni að miklu eða öllu leyti til þeirra sveitarfélaga þar sem fiskeldið er rekið.

„Norðmenn líta svo á að þeir hafi gert mistök með því að láta þau gjöld sem tekin voru af fiskeldinu ekki skila sér í meira mæli til þeirra sveitarfélaga þar sem fiskeldið fer fram“, segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra.

Fiskeldi Austfjarða fær nýjan fóðurpramma

Fiskeldi Austfjarða fær nýjan fóðurpramma

Í síðustu viku kom til hafnar á Djúpavogi nýr fóðurprammi í eigu Fiskeldis Austfjarða.  Pramminn sem fengið hefur nafnið Úlfsey ber tæplega 400 tonn af fóðri og er þegar kominn í notkun á nýrri eldisstaðsetningu fyrirtækisins í Berufirði.  Úlfsey er smíðuð 2008 og er afar vel búið og glæsilegt verkfæri.  Að sögn Jónatans Þórðarsonar, eldisstjóra FA, er um byltingu að ræða fyrir starfsmenn fyrirtækisins og mikil ánægja er með komu Úlfseyjar en hún er stærsti sérsmíðaði fóðurprammi sem notaður hefur verið á Íslandi.  Koma Úlfseyjar markar enn frekar þá miklu uppbyggingu sem er að verða í íslensku fiskeldi um þessar mundir og þá fagmennsku sem einkennir hana.

Málþing um sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi

Málþing um sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi

Landssamband Fiskeldisstöðva stóð fyrir opnu málþingi um sjókvíaeldi í Ísafjarðadjúpi þann 10. maí sl.  Málþingið var mjög vel sótt af heimamönnum og góður rómur gerður af framsöguerindum.  Líflegar umræður spunnust um málefnið enda margir áhugasamir um uppbyggingu sjókvíaeldis á þessu landssvæði.  Jafnframt eru ýmis sjónarmið um samspil sjókvíaeldis við aðrar atvinnugreinar og voru málin því rædd frá ýmsum vinklum.

Öll erindi málþingsins eru vistuð og aðgengileg á vef ATVEST.

Arctic Fish hlýtur umhverfisvottun ASC

Arctic Fish hlýtur umhverfisvottun ASC
– Fyrsta eldisfyrirtækið hér á landi til að hljóta vottunina

Fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish hefur hlotið eftirsótta alþjóðlega umhverfisvottun Aquaculture Stewardship Council (ASC), fyrst íslenskta fyrirtækja. Stjórnendur og starfsfólk Arctic Fish og dótturfélaga þess, seiðaeldisins Arctic Smolt á Tálknafirði, sjóeldisstöðvarinnar Arctic Sea Farm (Dýrfiskur) í Dýrafirði og vinnslufyrirtækisins Arctic Odda á Flateyri, hafa unnið að því undanfarin ár að undirbúa og uppfylla kröfur umhverfisstaðalsins sem vottunin byggir á og var hún staðfest af stjórn ASC í síðustu viku.

Vottun ASC er hliðstæð alþjóðastaðlinum MSC, sem er þekktasti umhverfisstaðall sjávarafurða, en ASC er frábrugðinn MSC að því leyti að hann hefur verið aðlagaður sérstaklega að eldisafurðum. Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Fish, er afar stoltur af sínu fólki sem unnið hefur markvisst að aðlögun verkferla í samræmi við kröfur ASC undanfarin ár. Hann segir umhverfisaðstæður á Vestfjörðum með hreinan sjó, lágt hitastig, lítinn þéttleika í kvíjum hindra viðgang sjúkdóma og því engin lyfjanotkun í eldi félagsins ólíkt því sem getur gerist í heitari sjó. Ísland sé laust við þau vandamál sem þekkt eru erlendis auk þess sem mjög markvissar starfsaðferðir Arctic Fish til að hámarka hreinleika og gæði afurðanna veiti fyrirtækinu ákveðið forskot. „Vottun ASC er staðfesting á þeim árangri sem við höfum náð í þessum efnum og vottunin mun án efa hjálpa okkur í frekari sókn á erlendum mörkuðum þar sem kröfuharðir neytendur með mikla umhverfisvitund líta til afurða á borð við þær sem við framleiðum. Sá markhópur fer sífellt stækkandi og hann er tilbúinn til að greiða hærra verð fyrir vottaðar afurðir,“ segir Sigurður.

Aquaculture Stewardship Council
ASC eru óháð samtök, rekin án hagnaðarsjónarmiða (non-profit) sem byggja umhverfisstaðalinn á fullkomnum rekjanleika allt frá hrognum til þess er afurðir eldisfyrirtækjanna berast á borð neytanda, sem samræmist því vel eðli starfseminnar hjá Arctic Fish sem rekur allt í senn seiðaeldisstöð, sjóeldi og framleiðslu þar sem möguleiki er á fullvinnslu afurða.

Arctic Fish
Arctic Fish hóf starfsemi sína í silungseldi undir nafni Dýrfisks í Dýrafirði árið 2011. Þar er fyrirtækið enn með meginstarfsemi sjóeldisins sem nú er rekið undir nafni Arctic Sea Farm. Verið er að byggja upp nýja og fullkomna seiðaeldisstöð hjá systurfélaginu Arctic Smolt í Tálknafirði og er móðurfélagið einnig að undirbúa frekari vöxt, m.a. í laxeldi, sem gert er ráð fyrir að verði meginsvið félagsins í framtíðinni í stað silungseldisins þar sem aðaláherslan hefur legið hingað til. Fyrsta skrefið í laxeldi Arctic Fish verður stigið í haust þegar fyrstu laxaseiðin verða sett út og verða þau framleidd í samræmi við umhverfisstaðla ASC.

Fréttatilkynning frá Arctic Fish 17. maí 2016.

Frekari upplýsingar veitir Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Fish, í síma 777 3123. Netfang: sp@afish.is.