Fiskeldi Austfjarða fær nýjan fóðurpramma

Fiskeldi Austfjarða fær nýjan fóðurpramma

Í síðustu viku kom til hafnar á Djúpavogi nýr fóðurprammi í eigu Fiskeldis Austfjarða.  Pramminn sem fengið hefur nafnið Úlfsey ber tæplega 400 tonn af fóðri og er þegar kominn í notkun á nýrri eldisstaðsetningu fyrirtækisins í Berufirði.  Úlfsey er smíðuð 2008 og er afar vel búið og glæsilegt verkfæri.  Að sögn Jónatans Þórðarsonar, eldisstjóra FA, er um byltingu að ræða fyrir starfsmenn fyrirtækisins og mikil ánægja er með komu Úlfseyjar en hún er stærsti sérsmíðaði fóðurprammi sem notaður hefur verið á Íslandi.  Koma Úlfseyjar markar enn frekar þá miklu uppbyggingu sem er að verða í íslensku fiskeldi um þessar mundir og þá fagmennsku sem einkennir hana.